Vilja bjóða Bíó Paradís í Kringluna

Sambíóin hafa boðið Bíó Paradís upp á mögulegan samstarfsgrundvöll í kvikmyndahúsi þeirra í Kringlunni í kjölfar frétta um að leigusamningur Bíó Paradís sé að renna út við Hverfisgötuna og að gerð hafi verið krafa um hækkaða leigu fyrir húsnæðið þar.

Fram kemur í fréttatilkynningu að forsvarsmenn Sambíóanna hafi haft samband við Hrönn  Sveinsdóttur, framkvæmdastýru Bíó Paradís, og viðrað þá hugmynd að bíóið fái hluta af sölum Sambíóanna í Kringlunni undir sína starfsemi. Þá segir að forsvarsmenn Kringlunnar séu einnig mjög jákvæðir í garð þessarar hugmyndar.
 
„Kringlan er mjög miðsvæðis og öll þjónusta mjög góð í Kringlunni. Sambíóin Kringlunni eru mjög vinsæl fyrir eldri markhópinn og þá sem vilja sjá vandaðar myndir. Óskarsverðlaunamyndir hafa verið mjög vinsælar í Kringlunni ásamt því sem þar hafa verið óperusýningar í beinni frá Metrópólitan óperunni. Bíóið er einnig vinsælt í fjölskyldumyndum og hentar því afar breiðum hópi bíóunnenda,“ segir enn fremur.
 
Þá segir að góð bíómenning sé metnaðarmál Sambíóanna og að menn þar á bæ vilji leggja hönd á plóginn við að viðhalda fjölbreyttu úrvali kvikmynda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert