„Almenningi er misboðið“

Vinirnir Muhammed og Illugi.
Vinirnir Muhammed og Illugi. Ljósmynd/Aðsend

„Við kynntumst þegar strákarnir okkar byrjuðu saman í leikskóla,“ segir Valur Grettisson, einn aðstandenda undirskriftasöfnunar, þar sem skorað er á íslensk stjórnvöld að hætta við brott­vís­un Muhammeds Zohair Faisal, sjö ára drengs, og fjöl­skyldu hans á mánu­dag. Fjölskyldurnar tvær eru saman á KFC þegar blaðamaður nær tali af Vali.

„Illugi strákurinn minn talaði mikið um Muhammed, en ég var ekki alveg viss strax hvort hann væri til í alvörunni því hann var alltaf farinn heim úr leikskólanum þegar ég kom,“ segir Valur. Muhammed og fjölskylda reyndust þó sannarlega til í alvörunni. Hjónin Faisal og Niha Khan komu hingað til lands árið 2017 frá Óman þaðan sem þau höfðu flúið frá heimaríkinu Pakistan þar sem foreldrar Nihu höfðu þegar lofað hana eldri manni.

Ljósmynd/Aðsend

Blóðhefnd liggur við því að rjúfa samkomulag

„Það liggur blóðhefnd við því að rjúfa samkomulag um giftingu,“ segir Valur og bætir við að hvergi séu fleiri heiðursmorð framin en í Pakistan. Af um 5.000 heiðursmorðum sem framin eru árlega í heiminum, séu um 1.000 í Pakistan. „Þetta er umhverfi sem við [Íslendingar] skiljum ekki, en þau upplifa sig ekki örugg þar.“

Yfir 7.000 manns hafa skrifað undir áskorunina og segir Valur að sá mikli samhugur hafi farið fram úr björtustu vonum. „Almenningi er misboðið. Það lítur út fyrir að fólk sé komið með nóg af því að hafna fjölskyldum á ómanneskjulegan hátt,“ segir Valur.

Fjölskyldan hefur búið í Vesturbænum undanfarin tvö ár á meðan umsókn þeirra var til meðferðar hjá Útlendingastofnun, og stundar Muhammed nám í 1. bekk í Vesturbæjarskóla. Boðað hefur verið til veislu í skólanum klukkan 14 á morgun þar sem nemendur, foreldrar og kennarar munu kveðja fjölskylduna, fari svo að brottvísuninni fáist ekki seinkað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert