Ánægð með að vera á lífi eftir rútuslys

Berglind Gunnarsdóttir í leik með Snæfelli.
Berglind Gunnarsdóttir í leik með Snæfelli. mbl.is/Hari

Berglind Gunnarsdóttir, landsliðskona í körfubolta, greinir frá því í Facebook-færslu sinni að hún hafi hlotið háls- og mænuáverka í rútuslysi 10. janúar síðastliðinn.

Þá valt rúta með fimmtíu háskólanemum á leið í skíðaferð til Akureyrar en Berglind er læknanemi. Þrír voru fluttir með þyrlu á Landspítalann. 

Áður en slysið varð stefndi hún á að spila loksins körfubolta eftir sjö mánaða fjarveru vegna aðgerðar á öxl. Þau áform breyttust snarlega eftir slysið.

„Fyrst eftir slysið gat ég lítið sem ekkert hreyft mig og skynið var brenglað. Mestu máli skipti þó að ég var á lífi, hausinn 100% í lagi og ég er enn þá sama Berglind. Við fögnum öllum litlum sigrum en fram undan er löng og mikil endurhæfing til þess að ná sem mestri hreyfigetu til baka. Keppnisskapið mitt er tilbúið í þessa áskorun,“ skrifar Berglind í færslunni.

Hún og hennar fólk þakkar vinum, viðbragðsaðilum, starfsfólki Landspítalans og öðrum sem hafa sýnt stuðning síðustu vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert