Formannsslagur fram undan hjá rafvirkjum

Margrét er fyrsta konan til að bjóða sig fram til …
Margrét er fyrsta konan til að bjóða sig fram til formanns, eftir því sem hún best veit. Ljósmynd/Aðsend

Fram undan er formannsslagur hjá Félagi íslenskra rafvirkja (FÍR), en kosið verður um nýjan formann nú í febrúar. Margrét Halldóra Arnarsdóttir rafvirki hefur ákveðið að gefa kost á sér í embættið en hún fer þá gegn sitjandi formanni, Borgþóri Hjörvarssyni, sem settist í formannsstólinn eftir hallarbyltingu innan félagsins árið 2015.

Margrét segir í samtali við mbl.is að hún sé fyrsta konan til að bjóða sig fram til formanns FÍR, eftir því sem hún best veit, og í raun í fagfélögunum öllum. Hún segist hafa fundið fyrir góðum meðbyr og stuðningi við framboð sitt innan félagsins. „Ég er að bjóða mig fram til að bjóða upp á breytingar sem ég tel að félagsmenn vilji. Það er mín upplifun eftir samtöl við félagsmenn.“ Hún telur að það sé kominn tími á nýja forystu og breyttar áherslur. Það hafi komið í ljós eftir könnun sem gerð var í kjölfar síðustu kjarasamninga.

Í kynningu á framboðinu sem Margrét sendi á félagsmenn, segir meðal annars: „Af minni reynslu af störfum innan FÍR tel ég brýna þörf fyrir það að auka skilvirkni í störfum stjórnar. Til þess þarf aðila sem er opinn fyrir breytingum og er ekki fastur í gömlum hefðum. Ég hef hug á að halda því góða en bæta við því sem mér þykir upp á vantar. Af þessu leiðir að taka upp upplýsingakerfi og samskiptaleiðir tuttugustu aldarinnar, tryggja að meðlimir stjórnar og félagsmenn hafi betri og áreiðanlegri leiðir til að koma sínum hugmyndum á framfæri að þeim sé fylgt eftir.“

Vill sjá sér kjarasamning fyrir rafvirkja

Allt frá því Margrét lauk námi í rafvirkjun hefur hún tekið þátt í félagsstörfum innan FÍR, gegnt starfi meðstjórnanda og gjaldkera ásamt því að hafa verið fulltrúi FÍR í ungliðahreyfingu Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ) sem varaformaður, ásamt því að sitja í miðstjórn RSÍ.

„Í störfum mínum hef ég meðal annars tekið þátt [í] eflingu aðsóknar grunnskólabarna í rafiðnaði, haldið viðburði í þágu RSÍ Ung til að efla vitundarvakningu á réttindum meðal yngri félagsmanna, myndað tengslanet við ungliða á [N]orðurlöndum með það í huga að stuðla að aukinni samvinnu og skiptast á þekkingu, unnið að breyttum þörfum fyrir stækkandi hóp kvenna sem starfa nú í rafiðnaði og lengi mætti telja.“

Hvað kjaramálin varðar segist Margrét ekki vilja sjá samningsumboð framselt til RSÍ heldur frekar semja um almennan kjarasamning fyrir rafvirkja sérstaklega. Þannig megi tryggja þá hagsmuni sem eru rafvirkjum mikilvægastir og komast hjá málamiðlunum vegna annarra hópa sem þeir eigi ekki samleið með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert