Jarðskjálfti 2,9 að stærð á Reykjanesi

Kort/Veðurstofa Íslands

Jarðskjálfti upp á 2,9 varð á sjötta tímanum í nótt 5,2 kílómetra vestsuðvestur af Fagradalsfjalli á Reykjanesi.

Töluverð eftirskjálftavirkni hefur verið í nótt eftir að skjálfti, 4,3 að stærð, varð við Grindavík laust fyrir klukkan hálfellefu í gærkvöldi.

Fram kemur í tilkynningu sem barst frá Veðurstofu Íslands upp úr klukkan tvö í nótt að heldur hafi dregið úr virkninni á svæðinu en gera megi ráð fyrir því að jarðskjálftahrinan, sem hófst í raun 21. janúar, haldi áfram.

Líklegast er að hún stafi af spennubreytingum vegna landriss á svæðinu.

Í athugasemdum jarðvísindamanns á Veðurstofu Íslands kemur fram að nýjasta gps-úrvinnslan sýnir áframhaldandi landris á svæðinu vestan við Þorbjörn.

Í heildina hefur land risið yfir fjóra sentimetra frá 20. janúar síðastliðnum. Gervitunglamyndir sýna sömu þróun.

„Um er að ræða langtímaatburð og þarf að fylgjast vel með mælingunum til lengri tíma til að átta sig betur á heildarferli jarðhræringanna. Líklegasta skýring þessarar virkni er kvikuinnskot á 3-9 km dýpi rétt vestan við Þorbjörn. Líklegast er að virkninni ljúki án eldsumbrota,“ segir í færslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert