Jarðskjálfti upp á 3,3 skammt frá Grindavík

Fjallið Þorbjörn.
Fjallið Þorbjörn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jarðskjálfti af stærðinni 3,3 varð um tvo kílómetra norðaustur af Grindavík klukkan níu í morgun. Engar tilkynningar hafa borist Veðurstofunni um að hann hafi fundist.

Áframhaldandi jarðskjálftavirkni mælist á svæðinu, en dregið hefur úr hrinunni. Frá miðnætti hafa um 80 jarðskjálftar mælst, að því er kemur fram í tilkynningu.

Enn er verið að fara yfir minni skjálftana og búast má við því að staðsetningar á þeim skjálftum á vefsíðu Veðurstofunnar geti breyst eftir úrvinnslu.

Nýjasta GPS-úrvinnslan sýnir áframhaldandi landris á svæðinu vestan við Þorbjörn. Í heildina hefur land risið um 4,5 sentimetra frá 20. janúar.

Gervitunglamyndir sýna sömu þróun. Líklegast er að jarðskjálftavirknin stafi af spennubreytingum vegna þessa landriss á svæðinu. Samfara landrisi og breytingum í jarðskorpu má búast við áframhaldandi jarðskjálftavirkni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert