„Við búum á eldfjallalandi“

Magnús Tumi Guðmundsson, doktor í jarðeðlisfræði.
Magnús Tumi Guðmundsson, doktor í jarðeðlisfræði. Ljósmynd/HÍ

„Við búum á eldfjallalandi. [Það er] ástæðan fyrir því að við höfum staði eins og Bláa lónið og þessa sérstæðu náttúru. Við getum búið til okkar raforku og hitum húsin okkar með jarðhita, sem fólk annars staðar í heiminum öfundar okkur af. Þetta er hin hliðin á peningnum.“ Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur í samtali við mbl.is um landris og jarðskjálfta í námunda við Grindavík.

Magnús Tumi var á milli 14.00 og 17.00 í gær staddur á opnu húsi í Kvikunni, menningarhúsi Grindvíkinga, og svaraði spurningum og hélt „óformlega tölu“. Sagði hann að tugir manna hefðu mætt til að ræða málin og að fólk væri mjög yfirvegað.

Í góðu lagi að ganga á Þorbjörn

„Það er svo margt sem verið er að ræða, jarðsöguna og hvað hefur gerst. Svo voru auðvitað jarðskjálftar kvöldið og nóttina áður og þeir voru ofarlega í huga margra. Einnig hvaða atburðarás væri líkleg og hvaða afleiðingar hún myndi hafa,“ svarar Magnús Tumi spurður um hvað fólk hafi viljað ræða við hann í gær. Hann segir fólk vera mjög yfirvegað og fróðleiksfúst. „Fólk er t.d. að spá hvort það sé í lagi að ganga upp á Þorbjörn, sem ég tel nú vera í góðu lagi.“

Grindvíkingar vilja áfram ganga á fjallið sitt góða.
Grindvíkingar vilja áfram ganga á fjallið sitt góða. mbl.is/Kristinn Magnússon

Magnús Tumi segir einnig að á fundinn hafi komið hópur Pólverja, sem hafi eðlilega haft aðrar spurningar en margir Íslendingar, enda margir að upplifa jarðskjálfta í fyrsta skipti. „Ég benti á að hús séu byggð eftir ströngum stöðlum og verði ekki fyrir neinum skemmdum í þeim skjálftum sem verða og þoli miklu öflugri skjálfta. Fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að húsin ekki standi. Það er auðvitað eðlilegt að fólk sem kemur frá löndum þar sem svona lagað kemur ekki fyrir þurfi að átta sig á þessu.“

Magnús Tumi fræðir fólk á íbúafundi í Grindavík á mánudag.
Magnús Tumi fræðir fólk á íbúafundi í Grindavík á mánudag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skjálftarnir ekki aðalatriðið

Spurður hvort eitthvað sé hægt að spá fyrir um hvenær jarðskjálftavirkni á svæðinu fari að minnka kveður Magnús Tumi nei við. „Aðalatriðið í málinu er þetta landris. Skjálftarnir eru afleiðing af því. Landrisið er ástæðan fyrir því að hlutir eru á óvissustigi, ekki jarðskjálftarnir. Þeir eru algengir á þessu svæði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert