Vinsæl utanhússklæðning dæmd gölluð

Í tveimur dómsmálum á undanförnum árum hefur vinsæl utanhússklæðning, sem klæðir þúsundir húsa á landinu, fengið þann úrskurð að hún henti ekki íslenskum veðuraðstæðum. Árið 2015 í Hæstarétti og nú í desember í Landsrétti. Klæðningin heitir Canexel og kemur frá Kanada en það er fyrirtækið Þ. Þorgrímsson sem hefur verið umboðsaðili um áratugaskeið.

Málið er nokkuð óvenjulegt fyrir þær sakir að fyrirvaralaus 25 ára ábyrgð var á klæðningunni og 15 ára ábyrgð á yfirborði hennar upp úr aldamótum. Síðan þá hefur ábyrgðartíminn verið styttur úr 25 árum í 15 ár og yfirborðsábyrgðin færð úr 15 árum niður í 10. 

Í fyrra málinu sem var á Reykjanesi gerði dómkvaddur matsmaður úttekt á klæðningunni. Þar kemur fram að „yfirborðshúð klæðningarinnar sé ekki í samræmi við lýsingu seljanda á henni. Þá sé ljóst að klæðningin taki í sig raka og þrútni, sem valdi flögnun hennar og því að hún gegni ekki hlutverki sínu sem vörn fyrir veðri og vindum.“

Enn fremur kom fram að ekki væri ráðlegt að nota hana hér á landi og ekki hafi verið um einangrað tilfelli að ræða. Aðrar eignir með sömu klæðningu sem hann hafi skoðað hafi einnig sýnt sömu gallaeinkenni.

Þegar klæðningin hefur tekið í sig mikinn raka verpist hún …
Þegar klæðningin hefur tekið í sig mikinn raka verpist hún og bylgjur fara að myndast. Ljósmynd/Aðsend

Klæðningin var keypt á árunum 2001-2002 en það var árið 2009 sem yfirborð hennar fór að flagna og nú hafa myndast bylgjur í henni. Eftir árangarslaus samskipti við Þ. Þorgrímsson var málið fyrst höfðað í héraði árið 2014 og fullnaðarsigur fékkst eins og áður sagði í Hæstarétti árið 2016 þar sem ÞÞ þurfti að greiða rúmar þrjár milljónir króna auk dráttarvaxta í bætur og málskostnað.       

Seinna málið varðar hús á Kirkjubæjarklaustri þar sem klæðningin var keypt árið 2003. Á árunum eftir uppsetningu fór eigandinn Sólrún Ólafsdóttir að taka eftir því að klæðningin bólgnaði upp í miklum rigningum. Fyrst um sinn gekk það til baka enn með tímanum urðu bylgjurnar varanlegar. 

Í dómi Landsréttar sem kveðinn var upp í desember kemur fram í mati sem óháður matsmaður gerði að „skemmdir á klæðningu sé að mestu leyti að rekja til þess að efnið sé að hluta til óvarið að utan þar sem slit sé í yfirborðsmeðhöndlun þess. Verður því að draga þá ályktun að yfirborð klæðningarinnar hafi ekki þolað þá veðuráraun sem efnið hefur orðið fyrir.“

Sólrún þakkar fyrir að hafa sent ÞÞ ítarlegt erindi þegar bera fór á göllunum „Sumarið 2010 sendi ég tölvupóst til þeirra með myndum af húsinu og lýsi skemmdunum. Ég vinn málið á þessum tölvupósti, þetta var aðalsönnunargagnið. Ef ég hefði búið í Reykjavík þá hefði ég skellt myndunum á borðið og rifið kjaft en þarna var þetta bara óyggjandi,“ segir Sólrún í samtali við mbl.is. Henni voru dæmdar 2.872.419 krónur í bætur auk dráttarvaxta og 3 milljónir króna í málskostnað.

Í myndskeiðinu segir Sólrún stuttlega frá reynslu sinni af málaferlunum. Þá er rætt við Einar Huga Bjarnason lögmann.

Yfirborð klæðningarinnar á húsi Sólrúnar er farið að láta á …
Yfirborð klæðningarinnar á húsi Sólrúnar er farið að láta á sjá. Ljósmynd/Aðsend

Sólrún segist vita til þess að aðrir kaupendur klæðningarinnar hafi beðið dómsins sem féll í Landsrétti í desember þar sem hann gæti sett fordæmi fyrir önnur mál. Einar Hugi Bjarnason, lögmaður hennar, segir að tveir aðilar hafi þegar sett sig í samband við sig vegna málsins og hvetur þá sem hafa keypt Canexel-klæðninguna til þess að fá sérfræðinga til að rakamæla klæðninguna hjá sér til að kanna ástand hennar.  

Enn í sölu og lítið breyst

Í báðum málunum bar Þ. Þorgrímsson við að uppsetningu klæðningarinnar hefði verið ábótavant. Baldvin Elíasson, fjármálastjóri fyrirtækisins, segir dómana ekki hafa nein áhrif á sölu klæðningarinnar. „Þeir [dómkvaddir matsmenn] virðast ekkert hafa haft vit á því sem um var að ræða.“ Hann fullyrðir að almenn ánægja ríki með klæðninguna. Fyrirtækið hefur því ekki gripið til neinna sérstakra ráðstafana vegna dómanna tveggja sem hafa fallið. 

Á vefsíðu fyrirtækisins segir að fátt þoli veður og vind jafn vel og Canexel-klæðningin. „Þú gætir keypt þér aðra ódýrari tegund af klæðningu og sparað peninga – en það væri skammtímasparnaður. Til langs tíma litið ert þú búinn að spara margfalt með því að velja Canexel,“ kemur fram í umsögn um vöruna.  

Eigendur húsa með Canexel-klæðningunni eru hvattir til að láta sérfræðinga …
Eigendur húsa með Canexel-klæðningunni eru hvattir til að láta sérfræðinga kanna ástand klæðningarinnar. Ljósmynd/Aðsend

„Þú getur ímyndað þér í alla þessa áratugi sem við höfum verið að selja þetta hvort það eru ekki oft einhverjir hnökrar á því hvernig fólk vinnur hlutina. Það eru mjög skýrar leiðbeiningar en hún [Sólrún] fór bara ekkert eftir því.“ Ekki var hægt að fá skýr svör við því hvenær ábyrgðartíminn breyttist en fulltrúar framleiðandans hafa komið hingað til lands vegna málanna tveggja.

Í prófun sem Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins gerði fyrir Þ. Þorgrímsson á klæðningunni segir að „Canexel-klæðningarefnið geti hentað til nota við íslenskar aðstæður, eða þar sem gera má við miklu álagi vegna tíðra frost-þíðu sveiflna.“  

Einar Hugi furðar sig á afstöðu fyrirtækisins. 

„Fjármálastjóri lýsti því yfir í vitnastúku í Landsrétti að þessi klæðning væri á 4.000 húsum á Íslandi. Nú hafa fallið tveir endanlegir dómar nýlegir. Þess er í engu getið á heimasíðu söluaðilans heldur þvert á móti farið mjög fögrum orðum um gæði þessarar klæðningar. Það hafa tíu sérfræðingar komið að þessu máli. Skoðunarmenn, dómkvaddir matsmenn, sérfróðir meðdómendur. Allir eru á einu máli um það að gallinn sé til staðar,“ segir Einar í samtali við mbl.is.

Reikningur Sólrúnar fyrir kaupunum. Afar fátítt er að svo löng …
Reikningur Sólrúnar fyrir kaupunum. Afar fátítt er að svo löng ábyrgð sé á slíkum vörum. Ljósmynd/Aðsend

Sligandi málarekstur

Sólrún og maðurinn hennar voru að komast á aldur og sáu fram á rólegri daga í kjölfar þess að þau seldu jörðina sína og byggðu húsið sem Canexel-klæðningin fór utan á. Maðurinn hennar sem nú er látinn var með Parkinsons og á meðan hann glímdi við veikindi sín í lok ævinnar lá málið niðri.

„Það er ömurlegt fyrir sálarlífið hjá fólki að vera með svona á herðunum,“ segir hún. Þrátt fyrir að hafa unnið málið á tveimur dómstigum er kostnaðurinn við rekstur málanna sligandi. „Mín tilfinning er að þeir [Þ.Þorgrímsson] séu að sýna okkur sem erum að rexa yfir þessu í tvo heimana með að fara með málið fyrir tvö dómstig. Ég er náttúrulega Skaftfellingur og við erum seinþreyttir til vandræða en þegar það sígur í okkur þá stöndum við á okkar rétti,“ segir Sólrún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert