Canexel-klæðningin víða illa farin

Þetta hús er staðsett í Keflavík og þarna má vel …
Þetta hús er staðsett í Keflavík og þarna má vel sjá hvernig rakinn hefur skemmt klæðninguna. Ljósmynd/Aðsend

Á annan tug einstaklinga hefur haft samband við lögmanninn Einar Huga Bjarnason til að kanna stöðu sína vegna hugsanlegs galla í Canexel-klæðningunni sem sett hefur verið utan á þúsundir húsa hér á landi með 25 ára ábyrgð.

Í frétt mbl.is frá því í gær kom fram að umrædd klæðning hefði verið seld um áratugaskeið hér á landi af fyrirtækinu Þ. Þorgrímson. Á síðustu árum hafa tveir endanlegir dómar fallið í Hæstarétti og Landsrétti þar sem klæðningin hefur verið dæmd gölluð og kaupendum verið dæmdar bætur en klæðningin var seld með 25 ára ábyrgð til langs tíma. 

Einar Hugi gerir ekki ráð fyrir að grundvöllur sé fyrir hópmálsókn, til þess sé of mikill munur á einstökum málum. „Fólk er að kaupa þessa klæðningu á mismunandi tímum og samskiptin við söluaðilann hafa verið ólík. Þannig að ég held að það sé heillavænlegast að hver og einn muni sækja sitt mál sjálfur. Hinsvegar er ákveðinn styrkur fólginn í því að það sé þetta margt fólk sem er að upplifa sig í sömu stöðu,“ segir Einar Hugi í samtali við mbl.is.

Meðal þeirra gagna sem hann fékk send í kjölfar þess að mbl.is fjallaði um málið eru meðfylgjandi myndir af klæðningum sem settar voru á hús í Keflavík og Hafnarfirði. Í Hafnarfirði segir eigandinn að gallinn hafi komið í ljós strax við fyrstu rigningu sem hafi skilið eftir sig bylgjur í klæðningunni.

Gallinn virðist ekki vera bundinn við ákveðin svæði þar sem von sé á meiri vætu og veðrun en annars staðar. „Ég taldi að þetta væri meira á votviðrasömum svæðum á landsbyggðinni en það virðist ekki vera raunin. Þetta er líka hér á höfuðborgarsvæðum í efri byggðum og úti um allt land sýnist mér.“   

Illa farin klæðning á húsi í Hafnarfirði. Eigandi þess segir …
Illa farin klæðning á húsi í Hafnarfirði. Eigandi þess segir klæðninguna hafa skemmst í fyrstu rigningu eftir uppsetningu. Ljósmynd/Aðsend
Bylgjurnar eru á fleiri en einni hlið.
Bylgjurnar eru á fleiri en einni hlið. Ljósmynd/Aðsend
Bylgjur í klæðningunni eru greinilegar. Eigendur fengu að eigin sögn …
Bylgjur í klæðningunni eru greinilegar. Eigendur fengu að eigin sögn fulltrúa Þ. Þorgrímsson á staðinn til að kíkja á skemmdirnar. Þeir hafi þó úrskurðað að ábyrgðin ætti ekki við í þessu tilviki. Ljósmynd/Aðsend
Klæðningin hefur greinilega gengið til þarna.
Klæðningin hefur greinilega gengið til þarna. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert