Eiga von á öllu starfsfólki til vinnu í dag

Ró er yfir höfninni en ólga undir og við bæjarfjallið …
Ró er yfir höfninni en ólga undir og við bæjarfjallið Þorbjörn. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ekki er búist við öðru en að allir eða allflestir erlendir starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækjanna í Grindavík skili sér til vinnu í dag. Björgunarsveitarmaður í Grindavík sagði frá því í útvarpsþætti á laugardag að töluvert af fólki hefði yfirgefið Grindavík þegar harðir jarðskjálftar riðu yfir.

„Ég var að koma frá vígslu nýs glæsilegs íþróttahúss. Tímasetningin er löngu ákveðin og við héldum okkur við hana. Þetta var notaleg stund með íbúum, gestum og gangandi. Þetta stendur upp úr í dag,“ sagði Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, þegar hann var spurður tíðinda.

600 með erlent ríkisfang

„Ég hef líka heyrt þetta, að einhverjir hafi farið úr bænum. Það kemur ekki á óvart. Þeir sem eiga hér sumarbústaði eða afdrep fóru í burtu um helgina. Það er eðlilegt að fólk vilji víkja af bæ þegar svona stendur á, fara í annað umhverfi. Ég veit ekki til þess að menn hafi farið í burtu til frambúðar og reikna með að flestir verði komnir í sína vinnu í fyrramálið,“ segir Fannar.

Um 600 Grindvíkingar eru með erlent ríkisfang, samkvæmt upplýsingum bæjarstjórans. Þar af eru um 400 Pólverjar og 30 Taílendingar en færri af öðru þjóðerni. Fréttir hafa borist af því að margir þeirra hafi orðið skelkaðir enda ekki vanir jarðskjálftum úr sínu heimalandi og tengi atburðina jafnvel við afleiðingar stríðsátaka.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert