Grunur um skipulagða vasaþjófnaði

Ein atvikalýsing sem lögregla hefur fengið er að ferðamenn séu …
Ein atvikalýsing sem lögregla hefur fengið er að ferðamenn séu truflaðir af einum þjóf, til dæmis við myndatöku, á meðan annar hirðir af þeim verðmæti. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglunni á Suðurlandi berast reglulega tilkynningar um vasaþjófnaði á fjölförnum ferðamannastöðum, helst við Gullfoss og Geysi og á Þingvöllum, og grunur leikur á því að um sé að ræða skipulagða brotastarfsemi. Þetta staðfestir Oddur Árnason yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is. Fyrst var greint frá á vef RÚV.

„Þetta kemur alltaf af og til og er búið að gera núna síðan sennilega seint á árinu 2018, þá fór að bera á þessu,“ segir Oddur og bætir því við aðspurður að vísbendingar séu í þá veruna að menn séu að sammælast um brotin.

Lýsingin sé þannig að um sé að ræða að minnsta kosti tvo menn saman, eða jafnvel fleiri. Ómögulegt sé hins vegar að segja til um hvort þetta séu sömu mennirnir. 

„Það er ómögulegt að segja. Við höfum ekki þær upplýsingar. Við höfum haft afskipti af fólki þarna en vandamálið er að menn tína aurana úr veskjunum og henda þeim [veskjunum] svo frá sér, svo þeir eru ekki með neitt þegar við stoppum þá sem tengir þá við brotið. Það er ekki hægt að tengja peningana við einn eða neitt.“

Ein atvikalýsing sem lögregla hefur fengið er að ferðamenn séu truflaðir af einum þjófi, til dæmis við myndatöku, á meðan annar hirðir af þeim verðmæti. „Það er ein lýsingin sem við höfum fengið, en svo er þetta nú oft þannig að fólk getur illa fest hönd á það nákvæmlega hvenær þetta gerðist.“

Að sögn Odds hefur lögregla aukið eftirlit með ferðamannastöðunum, sem og afskipti af fólki sem þar er. „Það þekkist í margmenni erlendis, þá eru menn að nota sér fjölmennið til að laumast um og fela sig í.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert