„Hljótum að horfa bálreiðar um öxl“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður stéttarfélagsins Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður stéttarfélagsins Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að tvennt hefði getað komið í veg fyrir verkföll í Reykjavíkurborg en þau hefjast á morgun á meðal félagsmanna stéttarfélagsins.  

„Að við héldum áfram að halda kjafti og vinna eða að borgaryfirvöld príluðu niður úr turninum sem þau dvelja í til að mæta kröfum okkar af réttlæti og sanngirni,“ skrifar hún á Facebook-síðu sinni.

„Hið fyrra er sögulegur ómöguleiki á þessari stundu. Hið síðara greinilega líka; hrörnun hugsjóna jafnaðarmennskunnar er svo langt gengin að jafnaðarmenn með áratuga reynslu af stjórnmálum geta talið sjálfum sér trú um að þeim komi kjaramál ekki við.“

Hún segir rætur uppreisnarinnar ná langt niður í jarðveg samfélagsskipulags okkar. Láglaunakonur geri nú tilraun til að fá eitthvað um það að segja hvernig vinnuafl þeirra er verðlagt. Viðbrögðin séu fyrirsjáanleg en um leið ömurleg.

„Stundin er runnin upp. Baráttan er okkar. Við hljótum að horfa bálreiðar um öxl. Við hljótum að bera höfuðið hátt. Allt sem að við eigum að baki mótar okkar, mótar afstöðu okkar. Við hljótum að hafna því að niðurstaðan í samtalinu um samfélagssáttmálann sé að við sjálfar, láglaunakonur í umönnunarstörfum, höfum aðeins eitt hlutverk í lífinu, að þola arðránið af fórnfýsi og undirgefni,“ skrifar formaðurinn.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert