Litið sé til heildardvalartíma umsækjenda

Flóttafólk frá Sýrlandi í heimsókn á Bessastöðum fyrir nokkru.
Flóttafólk frá Sýrlandi í heimsókn á Bessastöðum fyrir nokkru. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rauði krossinn á Íslandi fagnar ákvörðun dómsmálaráðherra um að fresta brottflutningi pakistanskrar fjölskyldu og fyrirhuguðum breytingum á reglugerð um útlendinga þar sem hámarkstími meðferðar verður styttur úr átján mánuðum í sextán þegar börn eiga í hlut.

Rauði krossinn segir þó að brýnt sé að skilgreina málsmeðferð á heildstæðan hátt, allt frá því að fólk leggur fram umsókn um alþjóðlega vernd og þangað til það yfirgefur landið. Þá leggur Rauði krossinn áherslu á að litið sé til heildardvalartíma umsækjenda, frá því umsögn er lögð fram og þar til viðkomandi yfirgefur landið, en ekki aðeins þann tíma sem mál er til meðferðar hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála líkt og nú er gert.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Rauða krossinum á Íslandi í tengslum við mál pakistanskrar fjölskyldu sem átti að vísa úr landi í dag. Þar segir jafnframt að Rauði krossinn muni óska eftir því við kærunefnd útlendingamála að mál fjölskyldunnar verði tekið til meðferðar á ný og að henni verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Þá munu talsmenn Rauða krossins fara yfir og skoða hvort mál annarra umsækjenda um alþjóðlega vernd falli undir fyrirhugaðar breytingar á reglugerð og gera eftir atvikum kröfur í samræmi við þær.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Rauða krossinum á Íslandi …
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Rauða krossinum á Íslandi í tengslum við mál pakistanskrar fjölskyldu sem átti að vísa úr landi í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Markmið laga um útlendinga er að tryggja mannúðlega og skilvirka meðferð stjórnvalda og þar verður sérstaklega að tryggja að bestu hagsmunir barna séu ávallt hafðir að leiðarljósi. Rauði krossinn fagnar yfirlýsingu dómsmálaráðuneytisins um að nú fari í gang vinna sem miði að því að stytta málsmeðferð þegar börn eiga í hlut en samhliða verður að tryggja að slíkar umsóknir fái sanngjarna og réttláta meðferð, sem felur m.a. í sér ítarlega rannsókn og einstaklingsbundið mat út frá bestu hagsmunum barnsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert