Þvottur hjá Fönn í 60 ár

Ari Guðmundsson skar fyrstu sneiðina eftir að starfsfólk söng afmælissöng …
Ari Guðmundsson skar fyrstu sneiðina eftir að starfsfólk söng afmælissöng á pólsku. mbl.is/RAX

Eigendur og starfsmenn Þvottahússins Fannar ehf. hafa gengið í gegnum ýmislegt á 60 árum. Eftir altjón í bruna í Skeifunni fyrir um sex árum var fyrirtækið endurreist á Kletthálsi og þar er framtíðin björt, að sögn Ara Guðmundssonar, framkvæmdastjóra frá 1991 og eiganda frá 2004.

Guðmundur Arason, faðir Ara, stofnaði Fönn í kjallaranum hjá móður sinni á Fjólugötunni 29. janúar 1960. Þvotturinn, sem einkum var skyrtur og lín, var þá hengdur til þerris á þvottasnúrum auk þess sem litlar borðviftur voru notaðar. Tæki voru af skornum skammti og viðskiptavinir fáir en nú er öldin önnur, afkastamikill nýr tækjabúnaður af bestu mögulegu gerð og 48 starfsmenn fyrir utan bílstjóra í verktakavinnu fullnægja þörfum einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. „Þetta iðnaðarhúsnæði hentar okkur mjög vel, við erum sérlega vel tækjum búin og viðskiptavinirnir hafa fylgt okkur í Árbæinn,“ segir Ari.

Starfsfólki var boðið var upp á snittur og kökur með kaffinu á afmælisdaginn og Ari segir að til standi að minnast tímamótanna með einhverjum hætti á árinu. „Við vinnum alla daga vikunnar en gerum eitthvað fyrir starfsfólkið á hverju ári og förum saman í dagsferð sem verður vegleg í ár,“ segir hann.

Starfsfólkið færði fyrirtækinu myndir úr sögu þess og söng afmælissöng á pólsku, Sto lat, sto lat ...

Ólst upp í fyrirtækinu

Mikil breyting varð á venjum fólks eftir bankahrunið. „Fyrir þann tíma notaði fólk stundum efnalaugar eins og fataskáp, fór jafnvel einu sinni í föt og svo með þau í hreinsun,“ segir Ari. „Eftir hrun fór fólk að ganga betur um fötin sín og kaupa föt sem þvo má í þvottavélum heima.“

Vöxtur fyrirtækisins hefur haldist í hendur við aukna ferðaþjónustu á undanförnum árum. Ari segir að fyrirtækið hafi verið byggt upp í rólegheitum á sínum tíma og hann sníði sér stakk eftir vexti. „Þjónusta við hótel og fyrirtæki í matvælageiranum er viðamest og einstaklingarnir skipta okkur líka miklu máli en fjölbreytnin er mikil og til dæmis er mottuleiga til fyrirtækja og stofnana stór hluti af rekstrinum,“ segir Ari. „Þegar ferðaþjónustan nær sér aftur á strik erum við vel í stakk búin til að taka við aukningu, því við eigum hérna stórt húsnæði, sem við leigjum út, og getum allt að þrefaldað afköstin á næstu tíu árum.“

Fönn var fjölskyldufyrirtæki og Ari ólst upp í því, eins og hann segir. Systkinin eru fimm og Ari segir að þau hafi hjálpað sér mikið í uppbyggingunni eftir brunann, en annars sé hann sá eini úr fjölskyldunni sem hafi unnið í fyrirtækinu frá því að hann tók við stjórninni. Engu að síður hafi tilviljun ráðið því að hann varð framkvæmdastjóri. „Ég var tilbúinn að reyna eitthvað annað, en þegar ég lauk námi í viðskiptafræði 1991 urðu breytingar í fyrirtækinu. Þá spurði pabbi hvort ég væri ekki til í að taka við og ég tók hann á orðinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert