317 börnum vísað úr landi á sex árum

Ágúst Ólafur benti á að einu barni hefði verið vísað …
Ágúst Ólafur benti á að einu barni hefði verið vísað úr landi í hverrri viku, á sex ára tímabili. mbl.is/Hari

„Af hverju höfum við þurft að bíða í heila 26 mánuði eftir breytingum á útlendingalögunum og að heildarendurskoðun yrði það forgangsverkefni sem lofað var. Með mannúð að leiðarljósi?“ Spurði Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í umræðu um störf þingsins á Alþingi í dag.

Hún gerði að umræðuefni mál hins pakistanska Muhammeds Khan Balouch og fjölskyldu hans sem vísa átti úr landi í gær, en eftir mikinn þrýsting frá almenningi var brottvísun fjölskyldunnar frestað og dómsmálaráðherra tilkynnti á sunnudag að stytta ætti meðferðartíma í málum hælisleitenda þar sem börn ættu í hlut.

Rósa Björk segir styttingu á málsmeðferðartíma úr 18 í 16 …
Rósa Björk segir styttingu á málsmeðferðartíma úr 18 í 16 mánuðum vera plástur. mbl.is/Hari

„Sem betur fer hlustuðu nokkrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar á vilja fólks í þessu máli. Um leið og farsæl lausn fannst á máli þessarar litlu fjölskyldu sem nýtist líka fáeinum öðrum fjölskyldum í svipaðri stöðu er ekki um framtíðarlausn að ræða á því hvernig lög útlendingamála, framkvæmd og meðferð þeirra á að vera til frambúðar. Að stytta málsmeðferðartíma barnafjölskyldna úr 18 mánuðum niður í 16 er einfaldlega plástur.“

Einu barni vísað úr landi í hverri viku

Ágúst Ólafur Ágústsson fagnaði því einnig að Muhammed og fjölskylda fengju að vera áfram hér á landi, hann sagði Ísland ríkara fyrir vikið. Það væri þó nauðsynlegt að skoða málið frá aðeins stærra sjónarhorni því staðreyndin væri sú að á sex ára tímabili hefðu íslensk stjórnvöld vísað úr landi 317 börnum sem sótt hefðu um alþjóðlega vernd.

„Þetta er eitt barn á viku. Íslensk stjórnvöld hafa í sex ár vísað úr landi einu barni í hverri einustu viku. Á þessu tímabili veittu stjórnvöld næstum helmingi færri börnum vernd heldur en þeim börnum sem stjórnvöld vísuðu úr landi. Í fyrra var 74 börnum neitað um vernd. Þessi stjórnvöld vísa meira að segja úr landi börnum sem hér fæðast,“ sagði Ágúst Ólafur.

Endar á götunni og „líður vítiskvalir“ 

Þá sagði hann einfaldlega ekki rétt að gefa til kynna að íslensk stjórnvöld væru hætt að senda fólk til Grikklands. „Við gerum það án þess að hika. Og þar endar það á götunni og líður vítiskvalir, sagði Ágúst Ólafur og vísaði í sjónvarpsþáttinn Kveik sem sýndur verður í kvöld, en þar verður fjallað um aðstæður flóttafólks í Aþenu.

Hann spurði hvort það mætti ekki hugsa sér öðruvísi kerfi í landi sem væri nú það tíunda ríkasta í heimi. „Í landi sem þurfti sjálft að þiggja alþjóðlega aðstoð fyrir einungis tíu árum. Í landi sem þáði meira að segja þróunaraðstoð frá Sameinuðu þjóðunum allt fram til ársins 1976. En þetta á við okkar blessaða Ísland.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert