Einn og hálfur milljarður „small í andlit“ fulltrúa

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins. mbl.is/Hari

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, spurði Líf Magneudóttur, borgarfulltrúi Vinstri grænna og varaformann stjórnar Sorpu, á borgarstjórnarfundi um hvers vegna stjórnin hefði ekki vitað um slæma fjárhagsstöðu Sorpu.

Í skýrslu Innri endurskoðunar, sem rætt var um á fundinum, kom fram að alvarlegir misbrestir hefðu orðið í upplýsingagjöf framkvæmdastjóra Sorpu til stjórnar félagsins vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi.  

Misbresturinn varð þegar verkfræðistofan Mannvit lagði fram nýja áætlun um bygginguna aðeins mánuði eftir að fimm ára áætlun Sorpu 2019 til 2023 var samþykkt af stjórn í október 2018. Áætlun Mannvits var hálfum milljarði hærri en stjórn hafði ráðgert. Þá voru mis­tök við fjár­fest­inga­áætl­un og hærri fram­kvæmda­kostnaður til þess að bæta þurfti 1,4 millj­örðum við fjár­hags­áætl­un fé­lags­ins til næstu fjög­urra ára.

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins.
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vigdís sagði að í skýrslu Innri endurskoðunar vantaði umræður um sameiningu Sorpu bs. og sorpeyðingarstöðvarinnar Kölku á Reykjanesi. Sagðist hún hafa fengið þær upplýsingar frá Sorpu á sínum tíma að Kalka væri svo skuldsett að ekki væri tilefni til sameiningar. Suðurnesjamenn hafi aftur á móti sagt að Sorpa væri svo skuldsett að ekki væri grundvöllur fyrir sameiningu af hálfu Kölku. Í þessum sameiningarviðræðum hefði því átt að vera ljós fjárþörf Sorpu, að sögn Vígdísar.

„Þessi eini og hálfi milljarður kom eins og þruma úr heiðskíru lofti og small í andlit kjörinna fulltrúa hér í sumar,“ sagði hún og spurði hvenær Líf hefði vitað um slæma fjárhagsstöðu Sorpu. Hún svaraði og sagði stöðuna ekki hafa legið fyrir í janúar í fyrra þegar síðustu viðræður fóru fram um sameiningu Sorpu og Kölku. „Það lá ekki fyrir vanáætlun fyrr en um vorið-sumarið 2019, þannig að fjárhagsleg staða hvorki Sorpu né Kölku voru frágangssök,“ sagði Líf og nefndi einnig að búið væri að hverfa frá sameiningaráformum en að verið væri að skoða samstarf sorpsamlaga á Suðvesturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert