Vilja breytingar á stofnsamningi Sorpu

Sjálfstæðisflokkurinn vill að aðkoma borgarinnar að stjórn Sorpu verði í …
Sjálfstæðisflokkurinn vill að aðkoma borgarinnar að stjórn Sorpu verði í hlutfallslegu samræmi við eignarhlut. mbl.is/Styrmir Kári

Sjálfstæðisflokkurinn mun leggja það til á fundi borgarstjórnar í dag að borgarstjórn samþykki að beina því til eigendahóps Sorpu bs. að beita sér fyrir því að breytingar verði gerðar á stofnsamningi byggðasamlagsins vegna samsetningar stjórnarinnar þannig að Reykjavík, langstærsti eigandinn, geti sinnt betur sínu eftirlitshlutverki.

Í greinargerð Sjálfstæðisflokksins með tillögunni er bent á að Reykjavík hafi aðeins einn af sex stjórnarmönnum Sorpu, en lagt er til að aðkoma borgarinnar að stjórninni verði nær því að vera í hlutfallslegu samræmi við eignarhlut borgarinnar.

Ástæðan er niðurstaða skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkur sem telur alvarlega misbresti hafa orðið í upplýsingagjöf framkvæmdastjóra Sorpu til stjórnar félagsins vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi.

Sá mis­brest­ur varð þegar verk­fræðistof­an Mann­vit lagði fram nýja áætl­un um bygg­ing­una aðeins mánuði eft­ir að fimm ára áætl­un Sorpu 2019—2023 var samþykkt af stjórn í októ­ber 2018. Áætl­un Mann­vits var hálf­um millj­arði hærri en stjórn hafði ráðgert. Þá voru mis­tök við fjár­fest­inga­áætl­un og hærri fram­kvæmda­kostnaður til þess að bæta þurfti 1,4 millj­örðum við fjár­hags­áætl­un fé­lags­ins til næstu fjög­urra ára.

Í skýrslu innri endurskoðunar er meðal annars vísað til þess að stjórn Sorpu sé pólitískt skipuð og lagt er til að settar verði skýrar hæfisreglur um þá sem eru kosnir til stjórnarstarfa og að þar ættu að sitja einstaklingar sem eru óháðir eigendum SORPU, og þar með sveitarfélögunum.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í samtali við mbl.is, eftir að skýrslan var birt í lok janúar, að hann væri opinn fyrir því að gerðar yrðu breytingar á stjórnarfyrirkomulagi Sorpu þannig að félagaformi yrði breytt og stjórnin ekki aðeins pólitískt skipuð, líkt og í dag.

Borgin hafi veðsett framtíðarútsvarstekjur

Samþykkt var á borgarstjórnarfundi í september að borgarstjórn myndi ábyrgjast lánveitingu til Sorpu upp á einn og hálfan milljarð króna vegna viðbótarkostnaðarins við byggingu gas- og jarðgerðarstöðvarinnar.

„Með því að ábyrgjast lán byggðasamlagsins var borgin að veðsetja framtíðarútsvarstekjur Reykjavíkurborgar svo fyrirtækið gæti tekið lán vegna framúrkeyrslunnar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðust alfarið gegn þeirri ráðstöfun enda óskynsamlegt að veita veð í útsvarstekjum skattgreiðenda í Reykjavík vegna lausataka í rekstri byggðasamlagsins,“ segir í greinargerð Sjálfstæðisflokksins.

Þar er einnig vakin athygli á því að ábyrgð Reykjavíkurborgar sé komin yfir hundrað milljarða króna bæði í B-hluta fyrirtækja borgarinnar og byggðasamlaga. „Þrátt fyrir að Reykjavíkurborg sé fjölskipað stjórnvald þá hefur minnihlutinn í Reykjavík enga aðkomu að stjórn SORPU og því er framúrkeyrslan sjálf og eftirmálar hennar alfarið á ábyrgð meirihlutans í borginni. Í ljósi framanritaðs telja fulltrúar Sjálfstæðisflokks fullt tilefni til að taka upp stofnsamning SORPU. Hér er lagt til að eigendahópnum verði falið að koma með tillögu að slíkum breytingum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert