Annmarkar hafi ekki haft áhrif á meðferð málsins

Salurinn var þétt setinn í Strassborg í morgun.
Salurinn var þétt setinn í Strassborg í morgun. Skjáskot úr myndskeiði frá MDE

Lögmenn íslenska ríkisins lögðu meðal annars áherslu á það, í málflutningi sínum fyrir yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu í morgun, að MDE hefði með fyrri dómi sínum ekki virt svokallaða nálægðarreglu, að annmarkar á málsmeðferð við skipan dómara í Landsrétt hefðu ekki haft nein áhrif á meðferð máls kæranda og einnig að niðurstaða undirdeildarinnar grafi undan réttarríkinu, sjálfstæði hérlendra domstóla og valdi réttaróvissu.

Fyrir hönd ríkisins fluttu málið þau Fanney Rós Þorsteinsdóttir, settur ríkislögmaður, og enski lögmaðurinn Tim Otty. Fanney lagði í upphafi málflutningins áherslu á að íslenska ríkið bæri mikla virðingu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Nærtækasta dæmi þess væri stofnun Landsréttar sem væri tilkominn vegna athugasemda dómstólsins varðandi íslenskt dómskerfi.

Á vef stjórnarráðsins má lesa málflutningsræðu lögmanna ríkisins í heild sinni og einnig er þar samantekt á helstu atriðum í málflutningi íslenska ríkisins, sem lesa má hér að neðan í heild sinni:

„Dómsmálaráðherra hafi ekki verið bundin af umsögn dómnefndar og hafi verið heimilt samkvæmt lögum að gera tillögu um önnur dómaraefni til Alþingis, heldur en þau 15 sem dómnefnd mat hæfust, svo lengi sem dómaraefni uppfylltu lögbundin hæfisskilyrði til embættisins.

Dómsmálaráðherra hafi lagt áherslu á dómarareynslu og kynjasjónarmið sem bæði séu lögmæt hlutlæg sjónarmið. Leiðtogar stjórnmálaflokka á Alþingi hafi verið búnir að koma að koma því á framfæri að listi dómnefndar yrði ekki samþykktur án breytingar, vegna kynjasjónarmiða.

Arnfríður Einarsdóttir (AE) hafi uppfyllt hæfisskilyrði fyrir skipun í embætti dómara við Landsrétt og eigi að baki afbragðs feril sem aðstoðarmaður dómara, héraðsdómari og dómari í Félagsdómi. Hún haft meiri reynslu af dómstörfum en nokkur annar umsækjandi sem ekki var á 15 manna lista dómnefndar.

Alþingi hafi samþykkt skipun allra 15 umsækjenda sem ráðherra lagði til. Forseti Alþingis hafi lagt til að greidd yrðu atkvæði um allar tillögurnar í einu lagi, líkt og gert hefur verið með önnur málefni áður, og skrifstofa Alþingis telur lögmæta aðferð. Enginn þingmaður lagðist gegn því, þrátt fyrir að þeir væru allir upplýstir um að þeir gætu farið fram á atkvæðagreiðslu um hvern og einn umsækjenda.

Frá því að AE hafi tekið skipum í embætti dómara við Landsrétt hafi hún verið bundin af þeim reglum stjórnarskrár og íslenskra laga sem gilda um dómara og ekkert bendi til annars en að hún hafi sinnt því starfi með sóma, í máli kæranda sem öðrum málum.

AE hafi verið skipuð ævilangt í embætti og samkvæmt 61. gr. stjórnarskrárinnar verði dómara einungis vikið úr embætti með dómi. Sjálfstæði þeirra sé tryggt.

Þeir annmarkar sem voru á skipun AE að íslenskum stjórnsýslurétti og íslenskir dómstólar hafa fjallað um, höfðu enginn áhrif á lögmæti stöðu hennar sem skipaðs dómara. Íslenskir dómstólar hafa sérstaklega hafnað því að skipun hennar í embætti og embættisathafnir hennar teljist markleysa.

Að MDE hafi ekki virt svonefnda nálægðarreglu (e. principle of subsidiarity) og vikið til hliðar túlkun íslenskra dómstóla á íslenskum landslögum án þess að hafa til þess fullnægjandi grundvöll.

MDE hafi ekki tekið tillit hinna sérstöku og víðtæku afleiðinga niðurstöðu sinnar, bæði fyrir Ísland sem og önnur ríki Evrópuráðsins. Meirihluti dómstólsins hafi þannig komist að þeirri niðurstöðu að hvers konar annmarki á málsmeðferð við skipun dómara á hvaða stigi sem er, geti leitt til þess að dómsniðurstaða teljist ólögmæt, óháð því hversu tæknilegur annmarkinn er eða hversu langt er síðan hann átti sér stað. Þessi niðurstaða sé langt frá því að efla réttarríkið, valdi réttaróvissu og grafi undan sjálfstæði dómstóla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert