„Viðbúið að einhver verði svekktur“

Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður Dómarafélags Íslands, segir að það hafi verið greinilegt á spurningum dómara við yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu í morgun að hluti þeirra hið minnsta geri greinarmun á því hvort að sá Landsréttur sem dæmdi Guðmund A. Ástráðsson fyrir umferðarlagabrot hafi gætt réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og þess hvort dómstóllinn hafi uppfyllt það skilyrði 6. gr. að skipan dómstólsins sé ákveðin með lögum.

„Það er greinilegt að sumir dómarar vilja aðgreina þetta hinu og það er svolítið í takt við dóm undirdeildarinnar. En það eru ekki sömu dómarar sem koma að þessu, það eru 17 dómarar þarna en voru 7 hjá undirdeildinni, svo það er fjarskalega erfitt að spá fyrir um þetta,“ segir Kjartan Bjarni í samtali við mbl.is.

Heilt yfir segir hann að það hafi verið ljóst af spurningum dómara að þeir hefðu almennt kynnt sér málið vel og býst hann við því að niðurstaðan verði vel ígrunduð, sama hver hún verður.

Búist við dómi fyrir lok árs

Dómarar við yfirdeildina ætla sér að reyna að komast að niðurstöðu í málinu fyrir lok þessa árs, en þetta kom fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins og vísað til samtala sem fréttamaður hafði átt við dómara málsins.

Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður Dómarafélags Íslands.
Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður Dómarafélags Íslands. mbl.is/Golli

Kjartan Bjarni segir „viðbúið að einhver verði svekktur“ þegar dómur yfirdeildarinnar fellur, en hann ritaði á Facebook í morgun og ítrekaði í samtali við blaðamann að sama hver endanleg niðurstaða yrði væri mikilvægt að fólk gleymdi ekki þeim ótvíræðu framfarasporum sem bæði mannréttindasáttmálinn og dómar MDE hefðu valdið í bæði íslensku og evrópsku réttarfari í meira en hálfa öld.

Kjartan segir, spurður um hvaða mögulegu niðurstöðum dómararnir sautján gætu komist að, að möguleiki væri á að niðurstaðan yrði sú sama og í undirdeildinni eða henni algjörlega snúið við, en líka „að niðurstaðan verði enn þá afdrifaríkari og hafi áhrif á alla dómarana en ekki bara þá fjóra sem hafa kannski verið í eldlínunni hingað til,“ en sem kunnugt er hafa fjórir dómarar við Landsrétt ekki starfað frá því í fyrra, eftir að undirdeild MDE kunngjörði þá niðurstöðu sína að svo verulegir annmarkar hefðu verið á skipan landsréttardómara að samanlagðir hefðu þeir falið í sér gróft brot á landslögum þeim sem gilda um skipan dómara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert