Andlát: Sigurbergur Sigsteinsson

Sigurbergur Sigsteinsson.
Sigurbergur Sigsteinsson.

Sigurbergur Sigsteinsson íþróttakennari lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ miðvikudaginn 29. janúar síðastliðinn.

Hann fæddist á Landspítalanum í Reykjavík 10. febrúar 1948 og var því nær 72 ára þegar hann lést. Foreldrar hans voru Sigsteinn Sigurbergsson húsgagnabólstrari og Herdís Antoníusardóttir.

Sigurbergur lauk íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni 1969 og kennsla var hans aðalstarf, síðast í Verzlunarskóla Íslands 1975-2014, en lengi kenndi hann jafnframt í Árbæjarskóla. Hann var þjálfari um árabil, bæði í handbolta og fótbolta, þjálfaði meðal annars meistaraflokk karla og kvenna í handbolta hjá Fram, meistaraflokk karla hjá Haukum og HK, meistaraflokk kvenna hjá ÍR og Stjörnunni, og meistaraflokk karla í fótbolta hjá Leikni Fáskrúðsfirði og Þrótti Neskaupstað. Ennfremur kvennalandsliðin í handbolta og fótbolta. Þá þjálfaði hann yngri flokka í fótbolta hjá Val og Fram, var með knattspyrnuskóla hjá Fram og ÍR og Sumarbúðir í borg hjá Val. Auk þess var hann þjálfari hjá Lögreglunni og Landsbankanum.

Sigurbergur var fjölhæfur íþróttamaður og spilaði handbolta, körfubolta og fótbolta. Hann lék lengi með meistaraflokki Fram í handbolta og var lykilmaður í landsliðinu, lék fleiri A-landsleiki en nokkur annar Framari. Hann spilaði einnig með meistaraflokki Fram í fótbolta, var m.a. Íslandsmeistari í handbolta og fótbolta 1972, og lék einn A-landsleik. Þá lék hann unglingalandsleiki í körfubolta.

Sigurbergur fékk ýmsar viðurkenningar, meðal annars frá Fram, ÍR, HSÍ og KSÍ.

Eftirlifandi eiginkona Sigurbergs er Guðrún Hauksdóttir. Þau eiga fjögur börn og fimm barnabörn.

Útför Sigurbergs fer fram frá Grafarvogskirkju mánudaginn 10. febrúar og hefst klukkan 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert