„Einhverskonar pólitískur loddaraskapur“

Þingmenn stjórnarandstöðunnar óska eftir því að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- …
Þingmenn stjórnarandstöðunnar óska eftir því að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, flytji Alþingi skýrslu um samanburð á veiðigjöldum Samherja hér á landi og í Namibíu. Sú beiðni var samþykkt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hart var tekist á í þingsal í dag þegar rætt var um og atkvæði greidd um beiðni þingmanna stjórnarandstöðunnar um skýrslu um samanburð á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi.

Fjármálaráðherra sagði að um lýðskrum væri að ræða og samgönguráðherra kallaði þetta pólitískan loddaraskap á meðan þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu að þetta væri fullkomlega eðlileg beiðni, en hún var á endanum samþykkt með 27 atkvæðum gegn sjö.

Bjarni Benediktsson, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í greinargerð með skýrslubeiðninni er óskað eftir því að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, flytji Alþingi skýrslu um samanburð á veiðigjöldum Samherja hér á landi og í Namibíu. Þar segir ennfremur, að þær upplýsingar „sem fram komu í svokölluðum Samherjaskjölum, sem RÚV fjallaði um í fréttaskýringaþættinum Kveik, gefa tilefni til að bera saman hvað eitt af stærstu og áhrifaríkustu fyrirtækjunum á þessu sviði er reiðubúið til að greiða fyrir veiðirétt á Íslandi og í Namibíu“.

Eitt af eftirlitsverkfærum stjórnarandstöðunnar

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti á að það hefði verið heppilegra að málið hefði fengið meiri aðdraganda og umfjöllun í þinginu áður en til atkvæðagreiðslu kæmi. „Nú sýnist mér að menn hafi dálítið ruglað saman hugmyndinni um skýrslubeiðni, fyrirspurn eða þingsályktunartillögu, og málið er ekki þess eðlis að það falli vel að skýrslubeiðnarfyrirkomulaginu,“ sagði Birgir. 

Smári McCarthy, Björn Leví Gunnarsson og Oddný G. Harðardóttir voru …
Smári McCarthy, Björn Leví Gunnarsson og Oddný G. Harðardóttir voru á meðal þeirra þingmanna stjórnarandstöðunnar sem tjáðu sig um málið í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sagði að skýrslubeiðnir væru eitt af þeim eftirlitsverkfærum sem þingmenn hefðu. „Það ætti að vera fyllilega nóg að níu þingmenn komi sér saman um það að vilja óska eftir skýrslu vegna þess að þarf síðan hérna í þingsal að ákveða hvort skýrslan sé leyfð,“ sagði Jón. Það væri alltaf varhugavert þegar þingmenn meirihlutans töluðu um að skrefin þyrftu að vera fleiri og flóknara „þegar kemur að því að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu“.

Ekkert annað en lýðskrum

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði að þessi skýrslubeiðni væri ekkert annað en ákveðið lýðskrum. „Hér er þyrlað upp pólitísku moldviðri út af ágreiningsefni sem hefur verið um veiðigjöld á Íslandi og því haldið fram að útgerðir skammti sé veiðigjöld eftir því sem hún telur vera hæfilegt hverju sinni,“ sagði Bjarni.

Hér væri verið að rugla saman gerólíkum kerfum og beðið um að „þingið samþykki að þessi gerólíku kerfi séu tekin til samanburðar. Og í samanburðinum þá séu meintar mútugreiðslur hafðar með í reikningnum svo þetta komi sem best út í pólitískri umræðu á Íslandi,“ sagði Bjarni og bætti við að þetta væri ekki boðleg tillaga og ekki hægt að styðja hana.

Fullkomlega eðlilegt að almenningur fái að vita samanburðinn

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði að skilja mætti þingmenn meirihlutans svo að þeir hefðu gjarnan viljað fá að ritstýra skrifum á skýrslubeiðninni. Hann sagði að þetta væri einföld skýrslubeiðni og „fullkomlega eðlilegt að almenningur fái að vita samanburðinn hvað þetta varðar“. Ítrekað hefði verið bent á það að veiðigjöld á Íslandi hefðu farið lækkandi og að þau væru lág sem hlutfall af þeim verðmætum sem þar væru til skiptanna. 

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra sagði að um loddaraskap væri að …
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra sagði að um loddaraskap væri að ræða. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra sagði að hér væri „einhverskonar pólitískur loddaraskapur á ferð. Það er ekkert að því að fá slíkar upplýsingar fram og bera þær saman, en þegar menn biðja um skýrslu þá eru þeir yfirleitt að biðja um miklu umfangsmeira verkefni. Stundum alltof stór, sem hafa jafnvel hafa tekið heilu mannaflana heilu árin að vinna,“ sagði Sigurður. 

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, gerði athugasemd við það Miðflokknum hefði ekki verið boðið að taka þátt í skýrslubeiðninni. Hann sagði að beiðnin sjálf væri ekki alslæm en gerði þó athugasemdir vil hluta af greinargerðinni. Það væri forvitnilegt að bera saman kostnað við veiðar milli ólíkra landa. Hann sagði að það væru alvarlegir ágallar á greinargerðinni „sem mér finnst skemma í rauninni beiðnina. Ég mun samþykkja þessa beiðni, engin spurning [...] en það að það standi í greinargerðinni, með leyfi forseta: „Það pólitíska mat hefur aftur í verulegum atriðum byggst á áliti þeirra hagsmunaaðila í útgerð sem eru fulltrúar þeirra fyrirtækja sem gjaldið greiða.“ Þarna eru fullyrðingar sem eru bara rugl,“ sagði Gunnar og bætti við að svona þvæla ætti ekki heima í svona greinargerð. 

„Við hvað eru stjórnarliðar hræddir“

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að þingmenn hefðu fullan rétt á að kalla eftir þessum upplýsingum. Hún vildi meina að núverandi ríkisstjórn kvartaði oftar en aðrar, sem hún hefði hlustað á undanfarinn áratug, undan skýrslubeiðnum þingmanna. „Við hvað eru háttvirtir stjórnarliðar hræddir?“ spurði Oddný. Hún bætti við að auðvitað yrði þessi beiðni samþykkt því það væri mikilvægt að draga fram þessar upplýsingar. 

Beiðnin var samþykkt með 27 atkvæðum gegn 7.
Beiðnin var samþykkt með 27 atkvæðum gegn 7. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kvaðst sammála orðum fjármálaráðherra, og bætti við hann væri ekki hræddur við neitt, þetta væri ekki sambærilegt og þetta væri ekki marktækur samanburður. „Þess vegna er þetta loddaraskapur og þetta er sýndarmennska.“

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði að skýrslubeiðnin væri mjög almennt orðuð og að ráðherra hefði nokkuð frjálsar hendur við það hvernig hann leggur þann samanburð fram. „Það er ekkert óeðlilegt við þetta,“ sagði Björn og vísaði öllu tali um lýðskrum aftur til föðurhúsanna. 



mbl.is