Engin áform um skipulagða flutninga frá Kína

Enginn hefur greinst smitaður af kórónuveirunni á Íslandi.
Enginn hefur greinst smitaður af kórónuveirunni á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enginn einstaklingur hefur enn sem komið er greinst smitaður af kórónuveirunni 2019-nCoV á Íslandi. Þetta kemur fram í stöðuskýrslu eftir fund í samhæfingarmiðstöð almannavarna nú í hádeginu.

Í lok desember 2019 bárust fregnir af alvarlegum lungnasýkingum í Wuhan-borg í Kína. Í kjölfarið var staðfest að um áður óþekkt kórónuveiruafbrigði er að ræða, sem nú kallast 2019-nCoV. Staðfest er að veiran smitast á milli manna og að hún getur valdið alvarlegum veikindum. Á Íslandi er unnið samkvæmt óvissustigi, landsáætlun — heimsfaraldur inflúensu.

Í dag hefur sýking af völdum 2019-nCoV verið staðfest hjá um 28.284 einstaklingum og um 564 einstaklingar hafa látist (2%). Eitt dauðsfall af völdum veirunnar varð á Filippseyjum sem er eina dauðsfallið enn sem komið er utan Kína. Samkvæmt John Hopkins hafa 1.230 einstaklingar náð sér eftir veikindin.

AFP

Tilfellin sem greinst hafa eru frá Kína (28.057), Taívan (11), Taílandi (25), Ástralíu (14), Malasíu (12), Singapúr (28), Japan (45), Suður-Kóreu (23), Víetnam (10), Nepal (1), Filippseyjum (3), Sri Lanka (1), Kambodíu (1), Indlandi (3), Sameinuðu arabísku furstadæmunum (5), Frakklandi (6), Þýskalandi (12), Finnlandi (1), Ítalíu (2), Bretlandi (2), Rússlandi (2), Spáni (1), Svíþjóð (1), Belgíu (1), Bandaríkjunum (12), Kanada (5). Langflest tilfellin eru upprunnin í Kína.

Af þeim 26 einstaklingum sem greinst hafa í Evrópu hafa 10 smitast innan Þýskalands og einn innan Frakklands.

Á stöðufundi sóttvarnalæknis með áhöfn samhæfingarstöðar almannavarna í morgun var rætt um áframhaldandi aðgerðir hér á landi og leiðir til að koma í veg fyrir að veiran berist hingað til lands.

Erfitt að setja hópa ferðamanna í sóttkví

AFP

Á fundinum var rætt hvort talið er raunhæft að stöðva för ferðamanna eða setja hópa ferðamanna frá Kína í 14 daga sóttkví þegar þeir koma til landsins. Er það talið afar erfitt í framkvæmd m.a. vegna þess að í hverjum mánuði eru hér þúsundir einstaklinga með kínverskt ríkisfang en auk þess má búast við að ferðamenn annarra landa komi hingað til lands frá Kína.

Á Íslandi er ekki tæknilega mögulegt að fá ítarlegar upplýsingar um ferðaáætlanir þeirra sem koma með flugi til landsins. Því er erfitt að fylgjast með hvaðan ferðamenn koma. Einnig hefur Kína verið lokað nú um nokkurð skeið og því hefur hægt á straumi ferðamanna þaðan.

Á Norðurlöndunum hefur ekki verið farið fram á ferðatakmarkanir eða sóttkví ferðamanna frá Kína. Aðeins er farið fram á 14 daga sóttkví einstaklinga sem sóttir hafa verið með sérstöku flugi utanríkisþjónustunnar. Það má því segja að varúðarráðstafanir íslenskra yfirvalda gangi lengra en þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til í nálægum löndum.

Einstaklingar sem eiga heimili á Íslandi og koma til landsins frá Kína eru beðnir um að vera til öryggis í sóttkví alls 14 daga frá brottför frá Kína. Sjá hér leiðbeiningar sóttvarnalæknis til einstaklinga í sóttkví eða einangrun í heimahúsi. Atvinnurekendur eru beðnir um að sýna slíkri fjarveru starfsmanna skilning.

AFP

Leiðbeiningar fyrir framlínustarfsmenn hjá stofnunum og fyrirtækjum eru aðgengilegar á vef landlæknis. Hafa þær verið þýddar yfir á spænsku og pólsku að frumkvæði Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) og Ferðamálastofu, með aðstoð Samtaka atvinnulífsins. Verða þær birtar á vef landlæknis í dag.

Í leiðbeiningunum er fjallað um smitleiðir og grundvallaratriði varðandi varnir, sem er almenn handhreinsun og/eða notkun handspritts. Einnig er útskýrt hvaða hlífðarbúnað skal nota og hvernig hann er notaður. Mikilvægt er að fara eftir leiðbeiningum til að koma í veg fyrir smit.

Skv. borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins eru um 100 Íslendingar nú staðsettir í Kína en hluti þeirra er þar búsettur. Hjá sendiráði Íslands í Peking eru fjórir starfsmenn sem geta veitt aðstoð ef á þarf að halda. Engin áform eru uppi af hálfu íslenskra stjórnvalda um að flytja Íslendinga heim á skipulegan hátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert