Geta ekki tekið fólk með valdi

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir allt gert til að reyna að …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir allt gert til að reyna að koma í veg fyrir að kórónuveiran breiðist út hér á landi. Mynd/mbl.is

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að verið sé að gera allt sem mögulegt er til að hindra að kórónuveiran berist hingað til lands og nái að dreifa sér. Að loka inni alla kínverska ferðamenn sé ekki gerlegt og því sé reynt að beina tilmælum um sóttkví til þeirra Íslendinga sem koma frá Kína.

Greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að íslensk fjölskylda sem nýlega kom frá Kína væri í 14 daga sóttkví á heimili sínu. Fjölskylduföðurnum, Stefáni Úlfarssyni, þykja tilmæli sóttvarnalæknis frekar harkaleg í ljósi þess að ekkert sé gert varðandi ferðamenn sem koma frá Kína, að því er fram kemur í fréttinni. Segir hann hafa hvarflað að þeim að hundsa skilaboðin og viðurkennir að vera svolítið reiður yfir framkvæmdinni.

„Þetta getur auðvitað verið íþyngjandi fyrir fólk og er alls ekki auðvelt, en hinn kosturinn, að lenda í útbreiddum sýkingum er enn þá verri,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is

Hann bendir á að einungis sé um tilmæli að ræða, ekki fyrirskipanir. „Við höfum engin tök á því, eins og staðan er núna, að taka fólk með valdi. Það gæti komið upp sú staða að það þyrfti að gera það, en þá þarf að ræða það sérstaklega. Það er allra sísti kosturinn. Við erum að reyna að fræða fólk og veita þessar upplýsingar til að fólk taki þátt í þessu með okkur. Og skilji af hverju verið er að gera þennan hlut og eins aðra hluti í þessum vörnum,“ útskýrir hann.

Ekki tök á að sjá hvaðan fólk er að koma

„Það besta í stöðunni væri ef hægt væri að taka alla sem væru að koma frá Kína og loka þá af eða meina þeim að koma inn í landið. Það væri kannski kjöraðstaðan fyrir Ísland, en það er ekki hægt,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is. Fyrir það fyrsta séu engar beinar ferðir hingað frá Kína þannig að fólk komi frá Kína í gegnum önnur lönd.

„Við höfum engin tök á því að finna það út þegar fólk kemur til Keflavíkur, hvaðan það er að koma. Hvort það hafi verið í Kína á síðastliðnum 14 dögum. Það er engin tækni á Keflavíkurflugvelli sem leyfir það, samkvæmt yfirvöldum. Þetta er frá þeim komið. Það eru bæði lögregla og yfirvöld á Keflavíkurflugvelli sem segja þetta. Aðrar þjóðir sem gera þetta, sem alltaf er verið að vísa til, eru þjóðir sem hafa stundað svona takmarkanir í mörg ár og fólk þarf að skrá sig sérstaklega áður en það kemst inn, en við erum ekki með það. Menn eru að spá í hvort þessi tækni verði til eftir til einhverja mánuði, en það er óljóst.“

Einn möguleikinn væri, að sögn Þórólfs, að vera með spurningalista og biðja þá sem koma hingað frá Kína að gefa sig fram, með það fyrir augum að loka þá inni.

„Ég er hræddur um að það gæfu sig ekki margir fram ef þeir vissu það, ef þeir væru að koma hingað í fimm daga ferðalag, að þeir yrðu lokaðir inni.“

Þá bendir Þórólfur á að hingað komi svo mikill fjöldi ferðamanna með kínverskt ríkisfang að ógjörningur væri að setja þá alla í sóttkví. „Bara sem dæmi að í desember þá voru um 40 þúsund gistinætur hjá kínverskum ferðamönnum á Íslandi. Þannig að við erum að tala um einhverjar þúsundir. Og hvar ætlum við að koma fyrir þúsundum einstaklinga hér? Þannig að þetta er ekki hægt.“

Þar sem ekki er hægt að ná til allra þeirra sem koma frá Kína og setja þá í sóttkví er kostur númer tvö í stöðunni, að sögn Þórólfs, að beina tilmælum um sóttkví til Íslendinga.

„Þeir eru þá alla vega lengur í landinu og verða hér áfram. Það er hægara um vik að loka þá af eða biðja þá um að vera heima. Það er ekki eins og fólk sé algjörlega lokað inni, en við erum með leiðbeiningar á okkar heimasíðu hvað felst í sóttkví. Við biðjum fólk um að vera ekki í vinnu, fara ekki á mannmarga staði og hafa hægt um sig í þessar tvær vikur, til að koma í veg fyrir það, að ef þeir veikjast þá fari þeir að smita út frá sér.“

Þeir sem hafa verið að greinast í Evrópu búa þar

Hann segir að með þessum aðgerðum og þeim tilmælum sem beint er til allra þeirra sem koma með flugi til Keflavíkur, að ef þeir hafi verið í Kína á síðastliðnum 14 dögum og veikist, þá láti þeir strax vita af sér, sé verið að reyna að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar.

„Þetta eru þær mögulegu ráðstafanir sem við getum gert og þetta eru harðari aðgerðir en til dæmis hin Norðurlöndin eru að beita. Þeir einstaklingar sem hafa verið að greinast í Evrópu búa í Evrópu og hafa verið að koma frá Kína. Það eru því frekar þeir heldur en ferðamenn sem eru að koma frá Kína. Það er verið að gera allt sem hægt er. Það væri heldur ekki gaman ef Íslendingar sem væru að koma hingað inn myndu veikjast og myndu smita út frá sér. Við erum að reyna að gera allt til þess að veira fari ekki að fjölga sér ef hún skyldi koma hingað.“

Þá segir Þórólfur það ekki möguleika í stöðunni að loka landinu alveg, enda þyrfti þá að loka landinu í marga mánuði jafnvel. „Það tók ár fyrir SARS að ganga yfir. Ætlum við að loka landinu í ár? Það myndi hafa svakalegar afleiðingar.“ Vísar hann þar til svipaðrar veiru sem fór sem faraldur um heiminn árið 2003.

Aðspurður segist Þórólfur ekki hafa upplýsingar um það akkúrat núna hve margir eru í sóttkví eftir að hafa komið frá Kína, en þær upplýsingar eru teknar saman af einstaka heilsugæslustöðvum. Hvort það eru fleiri en fjölskylda Stefáns getur hann því ekki sagt til um. Hann segir þó æskilegt að sóttvarnalæknir hafi þessar upplýsingar og gerir ráð fyrir að þær verði teknar saman á næstunni.

mbl.is

Kórónuveiran

2. júní 2020 kl. 16:26
2
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir