Kröfur Eflingar gangi ekki gegn kröfum BHM

Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM segir að ólíkir hópar á vinnumarkaði …
Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM segir að ólíkir hópar á vinnumarkaði hljóti að vera samherjar í baráttunni fyrir bættum kjörum, ekki andstæðingar. mbl.is/Eggert

„Það hefur legið fyrir í meira en ár að aðildarfélög Bandalags háskólamanna hafi hafnað krónutöluleiðinni, en vegna þess sem hefur komið fram í fjölmiðlum undanfarna daga vil ég að það komi skýrt fram að BHM styður Eflingu í sinni baráttu fyrir mannsæmandi kjörum,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna.

Síðastliðna daga hafa forsvarsmenn Eflingar haldið því til haga, í tengslum við yfirstandandi kjaradeilu þeirra við Reykjavíkurborg, að ríkið hafi í haust með samningum við fjögur félög innan BHM farið töluvert umfram þær krónutöluhækkanir sem samið var um í lífskjarasamningunum.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, sagði við mbl.is í vikunni að þarna hefði ríkið með örlæti komið til móts við hálaunahópa háskólafólks, með því að tryggja 12,5% kjarahækkanir upp launatöfluna. Efling fer fram á að „leiðrétting“ verði gerð á kjörum lægst launuðu hópanna hjá borginni, sem nemur á bilinu 22-52 þúsund krónum, til viðbótar við lífskjarasamningshækkunina.

„Við erum vel meðvituð um það að margir hópar búa við lök launakjör,“ segir Þórunn og bætir við að slíkir hópar finnist líka innan BHM. 

„Ég er þeirrar skoðunar að krafan um bætt kjör þeirra sem eru á lægstu laununum gangi ekki gegn kröfu BHM um að langskólamenntun sé metin til launa,“ segir Þórunn, í samtali við mbl.is um þetta efni.

„Stéttarfélög fara með samningsrétt fyrir hönd sinna félagsmanna og setja fram kröfurnar í samvinnu við félagsmenn sína og með hagmuni þeirra að leiðarljósi. Það er gert með ólíkum hætti, eftir aðstæðum, en við hljótum að vera samherjar í baráttunni fyrir bættum kjörum hér á landi en ekki andstæðingar,“ bætir Þórunn við.

Höfrungahlaup ekki náttúrulögmál

Spurð út í hið margumtalaða höfrungahlaup og hvort ekki sé ástæða til óttast að slíkt verði á íslenskum vinnumarkaði ef þeir sem eru á lægstu laununum fái öflugar kjarabætur, segir Þórunn að höfrungahlaup geti átt sér stað, en sé ekki náttúrulögmál.

„Við höfum allt frá hruni sem samfélag og aðilar á vinnumarkaði lagt mesta áherslu á hækkun lægstu launa. Innan BHM starfa margar stéttir og kjör þeirra eru mismunandi, innan þeirra stéttarfélaga sem hér eru, og það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að fjöldinn allur af háskólamenntuðu fólki á Íslandi er með laun í kringum 400.000 kr. Það þarf auðvitað að hækka þau laun, en það þarf líka að taka tillit til þess að þegar fólk fjárfestir í langskólamenntun og tekur jafnvel námslán til að fjármagna það, þá þarf slíkt að endurspeglast í launum þeirra og kjörum,“ segir Þórunn.

Fjöldi BHM-félaga er með lausa kjarasamninga við ríkið og lítið hefur þokast í þeim viðræðum að undanförnu, ef marka má fréttir. Þórunn segir alveg ljóst að BHM-félög telji sig ekki bundin af þeim krónutöluhækkunum sem samið var um í lífskjarasamningunum síðasta vor.

„Við höfum margoft bent á það í BHM að krónutöluhækkanir skekkja launamyndun í landinu, þær beinlínis eyðileggja launatöflurnar sem opinberir starfsmenn eru settir í og það eru málefnaleg rök fyrir því að krónutöluhækkanir henti ekki opinberum starfsmönnum,“ segir Þórunn.

mbl.is