Leikskólabörn send heim að borða

Foreldrar eða aðrir aðstandendur þurfa að sækja börn á mörgum …
Foreldrar eða aðrir aðstandendur þurfa að sækja börn á mörgum leikskólum borgarinnar og gefa þeim hádegismat í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mörg leikskólabörn í Reykjavík verða send heim laust fyrir hádegi í dag til þess að borða hádegismat, en börnin geta síðan snúið til baka södd og sæl eftir hádegi þegar foreldrar eða aðrir aðstandendur eru búnir að fæða þau.

Margrét Elíasdóttir, leikskólastjóri á Blásölum í Árbæ, segir í samtali við mbl.is að þetta sé ekki almenn regla þar þótt þetta eigi við um mörg börn. Deildirnar á leikskólanum séu mismunandi samansettar. Þar er ein deild af fjórum algjörlega lokuð í dag og öll börn af henni heima auk þess sem þjónusta á öðrum deildum raskast eitthvað.

Margrét Elíasdóttir leikskólastjóri
Margrét Elíasdóttir leikskólastjóri Ljósmynd/Aðsend

Margrét segir að ekki hafi verið í boði að koma með nesti í dag, frekar en aðra daga. „Það kemur enginn með mat að heiman hérna inn. Við erum með þessa þjónustu, erum með mötuneyti hérna og erum ekkert að bjóða upp á það að það sé verið að koma með nesti hérna.“

Flestir leikskólar borgarinnar lokaðir á morgun

„Þetta hefur áhrif á allt samfélagið,“ segir Margrét um yfirstandandi verkfallsaðgerðir Eflingar, sem nær til félagsmanna sem starfa fyrir Reykjavíkurborg og snertir þjónustu leikskólanna mest það sem af er, en í sólarhringsverkfallinu sem nú stendur yfir er gert ráð fyrir að um 3.500 leikskólabörn verði fyrir áhrifum af verkfallinu.

„Svo eru flestir leikskólarnir lokaðir á morgun, í dag er Dagur leikskólans og flestir leikskólar voru búnir að ákveða starfsdag á morgun, um 80% leikskóla í Reykjavík verða með starfsdag á morgun,“ segir Margrét og bætir við að hún telji að í næstu viku verði foreldrar orðnir pirraðir og argir vegna sífelldrar röskunar á þjónustu.

Telur að pirringur foreldra muni bitna á starfsfólki

„Ömmur og afar ganga núna í alls konar, en það verður ekkert í næstu viku þegar þetta fer að fara að vera dag eftir dag. Ég hef ekki trú á því að fólk geti haft einhverjar reddingar endalaust, þetta fer virkilega að hafa einhver áhrif í næstu viku,“ segir leikskólastjórinn.

Spurð hvert hún telji að ergelsi foreldra muni beinast segist hún óttast að það verði gegn starfsfólki leikskólanna.

„Það kemur örugglega eitthvað við okkur eins og aðra, við verðum bara að reyna að brynja okkur gagnvart því og svara skynsamlega fyrir alla hluti,“ segir Margrét.

mbl.is

Bloggað um fréttina