Útiloka ekki hitamet í dag

Seyðisfjörður.
Seyðisfjörður.

Tæplega 17 stiga hiti mældist á Seyðisfirði í nótt en hæsti hiti sem mælst hefur í febrúar er 19,1 stig og er ekki útilokað að það met verði slegið síðar í dag að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Vegir eru mikið til greiðfærir um allt land en þó er eitthvað um hálku eða hálkubletti á norðanverðu landinu. Mjög hvasst er og reikna má með byljóttum vindi og hviðum allt að 35-45 m/s, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. 

Mjög hvasst er víða á Suðvesturlandi og eru vegfarendur beðnir að sína aðgát við akstur.

Leið 57 sem átti að fara klukkan 6:52 frá Borgarnesi fellur niður vegna hvassviðris, samkvæmt tilkynningu frá Strætó en undir Hafnarfjalli eru yfir 30 metrar á sekúndu.

„Síðustu nótt hvessti úr suðri og er hvassviðri eða stormur víða á vesturhluta landsins. Gular viðvaranir vegna vinds eru í gildi um norðvestanvert landið þar sem búast má við að vindur verði hvassastur.

Rigning eða súld fylgir þessu hlýja lofti úr suðri en þurrt norðaustan og austan til og á þeim slóðum slær hnjúkaþeyr sér sums staðar niður. Hæsti hiti sem mældist síðustu nótt voru tæp 17 stig á Seyðisfirði. Þess má geta að hæsti hiti sem hefur mælst í febrúar er 19,1 stig sem mældist á Eyjabökkum þann 12. árið 2017 og er ekki útilokað að það met verði slegið síðar í dag. Eftir hádegi fer svo að draga úr vindi og úrkomu og það kólnar heldur,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspáin í dag og næstu daga

Sunnan og suðvestan 15-25 m/s, hvassast í vindstrengjum á norðvestanverðu landinu. Rigning eða súld sunnan og vestan til, annars þurrt að kalla. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast austanlands. Dregur úr vindi og úrkomu síðdegis og kólnar í veðri, suðlæg átt 8-15 seint í kvöld en hægari um landið austanvert. Vaxandi suðaustanátt á morgun, 10-18 síðdegis og rigning, en þurrt norðanlands. Hiti víða 2 til 7 stig á morgun.

Á föstudag:
Vaxandi suðaustanátt og rigning, 10-18 m/s síðdegis, en hægari vindur og þurrt norðanlands. Hiti 4 til 10 stig.

Á laugardag:
Útlit fyrir suðlæga átt, víða 10-15 m/s og snjókomu, en rigningu á láglendi um kvöldið. Hægari vindur og þurrt um norðanvert landið. Hiti kringum frostmark.

Á sunnudag:
Suðlæg eða breytileg átt 3-8 og slydda á köflum, en þurrt norðan- og austanlands, og norðaustan 8-15 með snjókomu á Vestfjörðum. Hiti nálægt frostmarki en frost 3 til 8 stig um landið norðanvert.

Á mánudag og þriðjudag:
Norðlæg átt og snjókoma með köflum, en þurrt sunnan- og vestanlands. Kalt í veðri.

Á miðvikudag:
Austlæg átt og víða dálítil snjókoma. Áfram kalt í veðri.

Veður á mbl.is

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er óvissustig enn í gildi vegna snjóflóðahættu í Ólafsfjarðarmúla.

Vegna hættu á slitlagsskemmdum verður ásþungi takmarkaður við 10 tonn á öllum vegum í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellsýslu, nema á hringvegi milli Reykjavikur og Selfoss. Takmörkun þessi tekur gildir kl.10:00 í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert