Dæmdur fyrir kynferðislega áreitni og líkamsárás

mbl.is/Hallur Már

Landsréttur staðfesti í dag fjögurra mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm yfir fimmtugum karlmanni fyrir kynferðislega áreitni og líkamsárás.

Var maðurinn fundinn sekur um að hafa farið með hönd undir klofið á konu og gripið í klofið á henni og kreist, allt utanklæða, á skemmtun sem þau voru stödd á. Í framhaldi af þessu hefði maður konunnar og konan gengið að hinum dæmda sem hefði svo kýlt eiginmanninn hnefahöggi í andlitið.

Engin vitni voru að kynferðislegu áreitninni en dómari mat frásögn brotaþola trúverðuga og þá styðst framburður hennar við framburð vitna sem konan sagði beint eftir atburðinn hvað hefði gerst.

Maðurinn hafði einnig verið ákærður fyrir að grípa um rassinn á konunni en var sýknaður af þeim hluta ákærunnar. Hann neitaði sök fyrir dómi.

mbl.is