Einhverjar tafir á flugi vegna vindhraða

Landgöngubrýr eru ekki í notkun á Keflavíkurflugvelli þessa stundina.
Landgöngubrýr eru ekki í notkun á Keflavíkurflugvelli þessa stundina. mbl.is/Eggert

Landgöngubrýr á Keflavíkurflugvelli voru teknar úr notkun á fjórða tímanum í dag vegna mikils vindhraða. Eins og staðan er núna er því hvorki hægt að hleypa fólki frá borði né um um borð með landgöngubrúm. Þetta staðfestir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við mbl.is.

Vélarnar hafa því verið færðar í stæði og notast við stigabíla og rútur. Það ferli hefur gengið nokkuð greiðlega fyrir sig.

Þetta hefur valdið einhverjum töfum, að sögn Guðjóns, en áhrifin þó varla teljanleg. „Lengsti tíminn sem einhver hópur hefur þurft að bíða um borð er tæpur klukkutími skilst mér. Almennt er það eitthvað minna.“

mbl.is