Enn „mjög lítið“ kvikumagn við Þorbjörn

Benedikt Ófeigsson hjá Veðurstofunni segir að enn sé mjög lítið …
Benedikt Ófeigsson hjá Veðurstofunni segir að enn sé mjög lítið magn kviku á um 3-5 kílómetra dýpi vestan við fjallið Þorbjörn nærri Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er enn þá mjög lítið magn, við erum að horfa á kannski þrjár til fjórar milljónir rúmmetra,“ segir Benedikt Ófeigsson, sérfræðingur í jarðskorpuhreyfingum hjá Veðurstofunni. Hann ásamt fjölmörgum öðrum sérfræðingum sat í gær vísindaráðsfund um landris og kvikusöfnun vestan við fjallið Þorbjörn nærri Grindavík.

„Staðan er að mörgu leyti bara áfram óbreytt, það er líklega aðeins að hægja á risinu, það eru allavega einhverjar breytingar í merkinu, svona hægar breytingar, ekkert stórkostlegt. Við erum enn að sjá landris og landbreytingar í kringum Þorbjörn, það hefur róast aðeins yfir þessu en það er ekkert stopp,“ segir Benedikt.

Rætt var á fundinum að mögulega þyrfti að setja upp fleiri mælitæki á svæðinu til þess að fylgjast með því til framtíðar, en Benedikt segir ljóst að það þurfi alveg örugglega að vakta svæðið næstu árin.

„Það er það sem við gerum frekar ráð fyrir en að það gerist eitthvað á morgun og til þess þurfum við mögulega fleiri mælitæki og við erum bara aðeins að fara yfir það hver þörfin er,“ segir Benedikt, en skoða þarf til dæmis á hvaða stöðum best væri að koma upp mælitækjum.

„Við erum bara að byrja á þeirri vinnu, við erum rétt búin í viðbragðsfasa og erum farin að plana lengra núna.“

Tólf dagar eru síðan óvissustigi var lýst yfir vegna landrissins vestan við Þorbjörn og á sama tíma færði Veðurstofa Íslands litakóða fyrir flug á gult. Benedikt segir að ekki hafi komið til tals á fundinum hvort tilefni væri til að endurskoða óvissustigið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert