Skíðakona á níræðisaldri komin með nýja skó

Hér er Jakobína ásamt Guðmundi Gunnlaugssyni, starfsmanni Íslensku alpanna, með …
Hér er Jakobína ásamt Guðmundi Gunnlaugssyni, starfsmanni Íslensku alpanna, með nýju skíðaskóna í vikunni. Ljósmynd/Guðmundur Gunnlaugsson

„Þetta er náttúrulega bilun af 87 ára gamalli kerlingu að vera að kaupa sér skíðaskó. Ég spurði hvort það fylgdi ekki stigi með, því þetta voru svo háir skór, en nei, það fylgdi ekki stigi með,“ segir Jakobína Valdís Jakobsdóttir skíðadrottning í samtali við mbl.is. Hún fór í Íslensku alpana í vikunni og keypti sér nýja skíðaklossa, en þeir gömlu voru orðnir um 20 ára gamlir og farnir að láta á sjá.

Jakobína rennir sér enn á skíðum, þó ekki jafn mikið og hún gerði áður, en hún er nítjánfaldur Íslandsmeistari í skíðaíþróttum og varð fyrsta íslenska konan til þess að keppa á skíðum á heimsmeistaramóti og Vetrarólympíuleikum.

Árið 1954 fór hún til Åre í Svíþjóð á heimsmeistaramót og tveimur árum síðar tók hún þátt á Vetrarólympíuleikunum í Cortina d‘Ampezzo á Ítalíu og lýsir hún þessum keppnisferðum sjötta áratugarins sem miklum ævintýrum, svona eftir á.

Nú fer hún með fjölskyldunni á skíði og núna fyrir skemmstu, áður en það hlánaði í borginni, voru fjórir ættliðir fjölskyldunnar á skíðum í skíðabrekkunni í Breiðholti, sá yngsti 18 mánaða og Jakobína elst, 87 ára gömul.

Blaðamaður sagðist vonast til þess að hafa sjálfur getu til þess að standa á skíðum 87 ára að aldri. Ekki stóð á svari: „Já já, þú getur ráðið því sjálfur,“ segir Jakobína, „ef þú ferð vel með þig þá geturðu það og hættir ekki að hreyfa þig,“ en sjálf syndir hún og segir það gera sér gott.

„Það er búið að gelda þetta allt saman“

Hún segir að skíðaíþróttin hafi verið skemmtilegri í gamla daga, þegar engar voru skíðalyfturnar og fólk gekk saman upp brekkurnar, á Ísafirði þaðan sem Jakobína er og annars staðar á landinu.

„Þegar þú ferð á skíði þá ert þú að fara …
„Þegar þú ferð á skíði þá ert þú að fara upp með lyftunni og sérð kunningja þína renna sér niður og þegar þú ert að renna þér niður þá eru þau að fara upp og þú hittir þau aldrei.“ mbl.is/Eggert

„Á heimsmeistaramótinu hafði ég aldrei séð skíðalyftur, þegar ég kom til Svíþjóðar,“ segir Jakobína en fyrstu lyfturnar hérlendis risu í kringum árið 1960.

Fyrir það var gengið með skíðin upp brekkurnar áður en skíðað var niður. Það fannst Jakobínu skemmtilegra, félagsskaparins vegna, og einnig bætir hún því við að hún sé af þeim sökum með góða fætur og sterka.

„Það er búið að gelda þetta allt saman. Þegar þú ferð á skíði þá ert þú að fara upp með lyftunni og sérð kunningja þína renna sér niður og þegar þú ert að renna þér niður þá eru þau að fara upp og þú hittir þau aldrei. Áður fyrr var þetta svo skemmtilegt, allir að tala saman og fara saman upp og hver á eftir öðrum niður, þetta var miklu skemmtilegra. En það er kannski léttara í dag.“

Blaðamaður spyr hvort þetta sé ekki að koma svolítið til baka í dag, með aukinni fjallaskíðaiðkun, en þá gengur fólk saman upp brekkurnar á skíðunum og rennir sér svo niður.

„Jú, ef þau fara ekki í þyrlum,“ segir Jakobína og hlær. „Það er það sem gefur þessu gildi líka, það er félagsskapurinn!“

Fjallaskíði njóta æ meiri vinsælda.
Fjallaskíði njóta æ meiri vinsælda. Ljósmynd/Ferðafélag Íslands
mbl.is