Loka umferð í miðbænum vegna hlaups

Hlaupið fer fram annað kvöld.
Hlaupið fer fram annað kvöld. Ljósmynd/Aðsend

Truflanir verða á umferð í miðbæ Reykjavíkur frá klukkan 19-20.10 annað kvöld vegna Norðurljósahlaups Orkusölunnar sem fer fram í miðbænum. Hlaupið er hluti af  Vetrarhátíð í Reykjavík en þetta er í fjórða sinn sem það er haldið og er skráning opin til miðnættis í kvöld. 

Mesta truflunin verður við Hafnarhúsið í Tryggvagötu á meðan á hlaupinu stendur eða frá 19.00-20.10 en í styttri tíma á öðrum stöðum. Kort af hlaupaleiðinni og nánari upplýsingar um truflun á umferð má finna hér. 

Hlauparar eru vel upplýstir.
Hlauparar eru vel upplýstir. Ljósmynd/Aðsend

Norðurljósahlaup Orkusölunnar er 5 km skemmtiskokk eða ganga þar sem þátttakendur hlaupa með upplýstan varning um miðbæ Reykjavíkur og eru hluti af glæsilegri ljósasýningu. Hlaupið hefst við Listasafn Reykjavíkur Hafnarhúsinu, hlaupið er fram hjá Hörpu, í gegnum Hallgrímskirkju, um Hljómskálagarðinn, í gegnum Ráðhús Reykjavíkur og endað svo í Hafnarhúsinu.

Hlaupaleiðin er skreytt ljósum og á reglulega er boðið upp á tónlist og hvatningu. Engin tímataka er í hlaupinu því það er ekki keppni sem slíkt heldur upplifun. Þátttakendur eru hvattir til að flýta sér hægt og njóta ljósasýningarinnar á leiðinni.

Hlaupið er 5 kílómetra langt.
Hlaupið er 5 kílómetra langt. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is