Búið að draga flugvélina af flugbrautinni

Skipt var um skemmda hluti í hjólabúnaðinum áður en hún …
Skipt var um skemmda hluti í hjólabúnaðinum áður en hún var dregin að flugskýlinu. Ljósmynd/Aðsend

Búið er að draga flugvél Icelandair, hverrar hjólabúnaður brotnaði við lendingu í gær, að flugskýli á Keflavíkurflugvelli þar sem ítarleg rannsókn á henni mun fara fram. Það er ekki tímabært að segja til um ástand vélarinnar eða hvort og þá hvenær hún muni fljúga aftur segir stjórnandi hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa.

„Hún var sett aftur upp á hjólastellið en það var skipt um hluti sem skemmdust. Síðan var hún dregin að skýlinu þar sem hún stendur. Það þarf að þjónusta hana, losna við mat, rusl og annað áður en hún verður dregin inn í skýlið,“ segir Ragnar Guðmundsson, stjórnandi rannsóknarinnar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa, í samtali við mbl.is.

Fleira en bara hjólabúnaðurinn sem skemmdist

Hjólabúnaður vélarinnar gaf sig og brotnaði skömmu eftir lendingu í gær en ekki er enn þá ljóst hvað olli því. Ljóst er hins vegar að það er ekki einungis hjólabúnaðurinn sem varð fyrir tjóni heldur einnig hreyfill vélarinnar og vængur.

„Þetta er talsvert meira tjón en það [bara hjólabúnaðurinn] en það er of snemmt að segja nákvæmlega hvað það er,“ útskýrir Ragnar.

Spurður um líkurnar á því að vélin muni aldrei fara í loftið á nýjan leik segist hann ekki vilja vera með slíkar vangaveltur á þessu stigi rannsóknarinnar.

Upplýsingar úr flugritum veita takmarkaðar upplýsingar

Flugritar vélarinnar verða sendir í greiningu en gögn úr þeim munu ekki gefa rannsakendum fulla yfirsýn heldur þarf að rannsaka hjólabúnaðinn ítarlega.

„Þetta verður aldrei bara rannsókn á flugritum vélarinnar. Þeir gefa okkur upplýsingar um það hvernig flugvélin var að hegða sér í aðfluginu og lendingunni, öll hugsanleg villuboð og slíkt sem upp koma þegar atvikið verður. En það eitt og sér segir okkur ekki nóg um tildrög atviksins heldur þurfum við að rannsaka hjólabúnaðinn sjálfan,“ bætir Ragnar við.

Rannsókn á flugbrautinni sjálfri er lokið en vinna við að hreinsa hana og ganga frá eftir aðgerðirnar síðan í gær stendur enn þá yfir. Ragnar gerir fastlega ráð fyrir því að í framhaldinu þurfi að skoða brautina vel með tilliti til skemmda á henni en það er hlutverk Isavia.

Rauðu hættustigi var lýst yfir á flugvellinum vegna atviksins í …
Rauðu hættustigi var lýst yfir á flugvellinum vegna atviksins í gær. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is