Heimsækja skóla og ræða við nemendur

Auður Ava Ólafsdóttir rithöfundur er ein þeirra sem heimsækja framhaldsskóla.
Auður Ava Ólafsdóttir rithöfundur er ein þeirra sem heimsækja framhaldsskóla. Ljósmynd/Aðsend

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur nú hleypt af stokkunum verkefni sem ber heitið höfundaheimsóknir í framhaldsskóla, þar sem rithöfundar heimsækja skólana, hitta nemendur í kennslustund og ræða við þá um bækur sínar.

Markmið verkefnisins er að hvetja nemendur til lestrar og auka skilning þeirra og áhuga á bókmenntum og starfi rithöfunda.

Höfundaheimsóknirnar hefjast nú á vorönn, í fyrstu umferð taka fjórir rithöfundar þátt og mæta í tíma til nemenda í íslenskum bókmenntum þar sem þeir fjalla um og ræða bækur sínar. Nemendurnir hafa þegar lokið við að lesa a.m.k. eina valda bók þess höfundar sem kemur í heimsókn og fá tækifæri til að bera upp spurningar og vangaveltur sínar við höfundinn eftir lesturinn. 

Höfundarnir sem skólarnir hafa óskað eftir nú í fyrstu umferð eru: Auður Ava Ólafsdóttir, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Guðrún Eva Mínervudóttir og Sigríður Hagalín.

Eftirtaldir skólar bjóða höfundunum í heimsókn á þessari önn: Menntaskólinn við Hamrahlíð, Menntaskólinn við Sund, Tækniskólinn og Kvennaskólinn í Reykjavík, að því er segir á vef Miðstöðvar íslenskra bókmennta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert