Börnin féllu „kylliflöt með andlitið ofan í sjóinn“

Börnin tvö voru komin á grúfu í sjónum þegar íslenskur …
Börnin tvö voru komin á grúfu í sjónum þegar íslenskur leiðsögumaður bjargaði þeim. mbl.is/Rax

„Við erum í miðjum samræðum um það af hverju það séu ekki betri upplýsingar og gæsla á staðnum þegar inn í sjónlínu mína koma hjón með tvö börn. Foreldrarnir eru ofar í fjörunni og börnin eru að leika sér fyrir neðan í flæðarmálinu. Ég fæ hnút í magann að sjá þetta og er að stíga fyrsta skrefið til að láta þau vita að þetta sé ekki æskilegur leikur þegar stór alda kemur og skellur yfir börnin, þau falla kylliflöt með andlitið ofan í sjóinn og sogið kemur og dregur þau út og þau aðskiljast,“ segir leiðsögumaður sem lýsir því þegar hann kom þessum tveimur börnum til bjargar í Reynisfjöru í gær.

Sjórinn var nokkuð úfinn og aldan freyðandi. „Þó að ég hafi séð ölduna stærri áður var sjórinn reiður og reglulega komu stærri öldur á land sem fólk hljóp hlæjandi undan,“ segir hann. 

„Hik kom á foreldrana við að fara beint á eftir þeim. Ég veit ekkert hvað þau voru að hugsa en ég hljóp niður og beint á eftir þeim,“ segir leiðsögumaðurinn. Hann hinkrar í smástund því aldan er með þeim hætti að ekki er hægt að vaða beint út í sjóinn hugsunarlaust því það þarf að bíða eftir andartakinu þegar aldan skolast út og tími gefst til að fara út í sjó áður en sú næsta kemur inn, útskýrir hann. „Þetta eru nokkrar sekúndur en virka eins og heil eilífð.“ 

Börnin að sogast út á sjó

„Sjórinn grefur sandinn svo fljótt að það dýpkar mjög fljótt þarna út í. Á þessum tímapunkti ákveð ég að fara fyrst á eftir barninu sem var komið lengra út sem var yngra barnið, stelpan. Hún er enn þá með andlitið ofan í sjónum og er að sogast út. Ég er kominn upp undir mitti út í sjó og er að berjast sjálfur við að standa ölduna. Það er númer 1, 2 og 3 að standa. Maður má ekki detta niður því þá skolast maður út. Ég næ […] ég skil ekki enn þá […] ég var kominn svo langt út, nokkru lengra en ég hef nokkurn tíma gert mér í hugarlund að maður myndi fara þegar ég næ að grípa aftan í bakið á henni í úlpuna og ríf hana upp úr sjónum. Ég vil ná andlitinu fljótt upp,“ segir hann. Þarna heldur hann á barninu, stelpu sem er í kringum fjögurra ára gömul, eins og ferðatösku til að halda henni upp úr sjónum.

Þegar hann snýr sér við er pabbinn kominn út í og er að basla við að ná taki á hinu barninu, eldra barninu. „Honum gengur mjög illa við það einhverra hluta vegna. Ég geng á milli þar sem hann er að basla við þetta og næ taki á því á sama stað og hinu,“ segir hann.

Þegar þau komu upp úr sjónum hóstuðu börnin sjónum upp úr sér. Þau voru alveg stjörf og sýndu engar tilfinningar. „Þau voru eins og frostpinnar. Augun voru galopin og þau horfðu beint fram fyrir sig eins og þau væru í transi,“ segir hann. Foreldrar barnanna huguðu strax að þeim.

Þetta er ekki óalgeng sjón í Reynisfjöru, samkvæmt leiðsögumönnum.
Þetta er ekki óalgeng sjón í Reynisfjöru, samkvæmt leiðsögumönnum.

Rekur hóp burt af stuðlaberginu í skjól undan ölduganginum

Þegar hann er að jafna sig eftir þetta heyrir hann óp fyrir aftan sig. „Þá er önnur alda að skella á stuðlaberginu þar sem fimm manna hópur ferðamanna stóð. Þau ná að halda sér vel á meðan aldan gekk yfir þau. Þeim fannst þetta fyndið og fóru að hlæja. Ég rýk af stað á stuðlana og segi fólki að koma sér í skjól,“ rifjar maðurinn upp.

Þegar hann lauk þessu skimaði hann eftir fjölskyldunni en sá hana hvergi. Hann taldi líklegt að þau hefðu mögulega farið á kaffihúsið sem er nálægt fjörunni er þar voru þau ekki. Þau voru horfin á braut. Hann veit ekki hvaðan fjölskyldan er en telur að um Evrópubúa hafi verið að ræða og áætlar að börnin hafi verið á aldrinum 4 til 9 ára. „Þetta gerðist allt svo hratt. Þau hafa örugglega verið í sjokki og farið beint að hugsa um börnin,“ segir hann.

Um hálftíma eftir atvikið hringdi hann í lögregluna og gaf skýrslu af atvikinu. Hann varð ekki var við aðra íslenska leiðsögumenn á svæðinu þegar atvikið átti sér stað. 

Kvíðinn að fara í Reynisfjöru með ferðamenn

Leiðsögumaðurinn segir brýnt að stjórnvöld bregðist við og bæti öryggi ferðafólks í Reynisfjöru. Það eina sem hann segir að hafi breyst á þeim sex árum sem hann hefur starfað sem leiðsögumaður er að nýtt skilti var sett upp. „Skiltið segir manni ekki neitt og það ganga allir fram hjá því og enginn tekur mark á því,“ segir hann. Gæsla þyrfti að vera í fjörunni, að mati hans. Hann segir einungis tímaspursmál hvenær fleiri dauðsföll verði í Reynisfjöru.

Hann segist vera orðinn hálfkvíðinn við að fara í Reynisfjöru því í hvert einasta skipti sem maður fer þangað er hættuástand. „Oft reddast þetta en ég veit ekki hversu lengi við getum stólað á það,“ segir hann og ítrekar að ástandið sé hættulegt því fæstir átta sig á alvarleika málsins.

„Þó að ég hafi séð ölduna stærri áður var sjórinn …
„Þó að ég hafi séð ölduna stærri áður var sjórinn reiður,“ segir leiðsögumaðurinn um aðstæður við Reynisfjöru í gær. mbl.is/Helgi Bjarnason

Málefnið mikilvægara en maðurinn 

Ástæðan fyrir því að leiðsögumaðurinn vill ekki koma fram undir nafni er sú að hann vill ekki að persóna sín verði gerð að aðalatriði í umfjölluninni. „Mér finnst stundum persónur og leikendur verða aðalatriðið í umfjölluninni. Ég gerði það sem allir borgarar hefðu gert í sömu stöðu,“ segir hann. „Aðalatriðið er að það verður að grípa til frekari aðgerða. Þetta gengur ekki lengur,“ segir hann áhyggjufullur.

Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem hann hefur þurft bjarga fólki úr hættu í Reynisfjöru en aldrei áður með sama hætti og nú. „Þetta snertir mann meira því þetta voru börn,“ segir hann en sjálfur er hann fjölskyldufaðir.

Hann viðurkennir að það hafi verið áfall að draga börnin, sem voru að sogast út á haf, upp úr sjónum. Það hafi hjálpað mikið að ræða atvikið við yfirmann og fjölskyldu sem hafi veitt honum mikinn stuðning. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert