13% fækkun á milli ára

Bretar voru fjölmennastir í janúar eða fjórðungur ferðamanna og fækkaði …
Bretar voru fjölmennastir í janúar eða fjórðungur ferðamanna og fækkaði þeim um 12% milli ára. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru 121 þúsund í nýliðnum janúar eða um 18 þúsund færri en í janúar árið 2019 samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Fækkun milli ára nemur 13%. Er þetta annað árið í röð sem brottförum farþega fækkar í janúar.

Bretar voru fjölmennastir í janúar eða fjórðungur ferðamanna og fækkaði þeim um 12% milli ára.

Bandaríkjamenn voru næstfjölmennastir, 14,8% af heild, en brottfarir þeirra voru ríflega ellefu þúsund færri en í janúar 2019 eða um 39,4% milli ára. Fækkun Bandaríkjamanna í janúar vegur þannig langþyngst í fækkun farþega í janúar. Þetta kemur fram á vef Ferðamálastofu. 

„Af einstaka þjóðernum voru flestar brottfarir í janúar tilkomnar vegna Breta sem fyrr segir en brottfarir þeirra voru um 30.000. Bandaríkjamenn voru í öðru sæti en brottfarir þeirra voru um 18 þúsund talsins eða 39,4% færri en í janúar árið áður. Í þriðja sæti voru brottfarir Kínverja, tæp 13 þúsund talsins og fjölgaði þeim um 25,7% milli ára.

Þar á eftir fylgdu síðan brottfarir Pólverja (6,9% af heild), Þjóðverja (5,5% af heild), Frakka (4,6% af heild), Japana (2,4% af heild), Ástrala og Ný-Sjálendinga (2,2% af heild), Ítala (2,2% af heild) og Íra (2% af heild),“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is