Arnaldur oftast lánaður í fyrra

Arnaldur Indriðason rithöfundur var vinsælastur hjá bókasafnsgestum í fyrra.
Arnaldur Indriðason rithöfundur var vinsælastur hjá bókasafnsgestum í fyrra. mbl.is/Eggert

Bókin Stúlkan hjá brúnni eftir Arnald Indriðason var sú bók fyrir fullorðna sem oftast var lánuð út af bókasöfnun landsins á síðasta ári, en bók Arnalds sem kom út haustið 2018 rataði 3.166 sinnum heim með bókasafnsgestum.

Skammt á hæla Arnaldi kemur Þorpið eftir Ragnar Jónasson og Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur var þriðja mest lánaða bókin á bókasöfnum landsins í fyrra. Þar á eftir raða sér bækur eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur, Camillu Läckberg og Hallgrím Helgason.

Þetta sést í nýjum tölum um útlán sem nú eru aðgengilegar á vef Landskerfis bókasafna, en upplýsingarnar byggja á gögnum um útlán úr bókasafnskerfinu Gegni.

Á vef Landskerfis bókasafna er hægt að skoða ýmsar tölulegar upplýsingar um útlán liðinna ára, um vinsælustu bækurnar, tímaritin og annað efni sem almenningur tekur að láni. Þá er hægt að skoða hvort munur sé á lestrarmynstri eftir landshlutum og einnig hægt að athuga hvað börnin eru að lesa, svo fátt eitt sé nefnt.

Börnin rífa Dagbók Kidda klaufa úr hillunum

Bókaflokkurinn Dagbók Kidda klaufa hefur notið gríðarlegra vinsælda á meðal barna undanfarin ár og vermir mörg toppsæti listans yfir barnaefni, sé horft fram hjá útlánum á Syrpunum sívinsælu með myndasögum Walt Disney.

Sú bók sem oftast var lánuð í ár var Dagbók Kidda klaufa: Leynikofinn, en sú var raunar lánuð oftar en nokkur önnur bók á bókasöfnum landsins í fyrra, eða 5.448 sinnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert