Hlutir úr hjólastelli fundust á flugbrautinni

Lendingarbúnaður vélarinnar brotnaði eftir lendingu og lagðist vélin á hliðina …
Lendingarbúnaður vélarinnar brotnaði eftir lendingu og lagðist vélin á hliðina í kjölfarið. Ljósmynd/Aðsend

Hlutir úr hjólabúnaði Boeing-flugvélar Icelandair sem hlekktist á eftir lendingu á Keflavíkurflugvelli á föstudag, eftir að lendingarbúnaður brotnaði, fundust á öðrum stað á flugbrautinni. Þetta staðfestir Ragnar Guðmundsson, stjórnandi rannsóknar á atvikinu hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Flugvefmiðillinn Aviation Herald fjallaði um atvikið á vefsíðu sinni á laugardag og var þar fullyrt að mikilvægan bolta hefði vantað í lendingarbúnaðinn. Ragnar segir hins vegar þá hluti sem ekki voru á sínum stað, hafa fundist.

„Þar sem flugvélin hafnaði á endanum á flugbrautinni voru ákveðnir hlutir í hjólastelli sem voru ekki á þeim stað. Við erum hins vegar búnir að finna þessa hluti. Þeir fundust á öðrum stað á flugbrautinni,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is. „Það er of snemmt að segja meira. Við erum að byggja atburðarásina. Við þurfum að lesa flugrita og fleira áður en við tjáum okkur meira um það. Það er bara í rannsókn,“ segir hann spurður hvaða hluti hafi verið um að ræða.

Búið að láta rannsóknarnefndir erlendis vita

Flug­vél­in sem um ræðir, TF-FIA, var fram­leidd árið 2000 og því orðin 20 ára göm­ul, en lend­ing­ar­búnaður­inn var nýr og hafði ein­ung­is verið í notk­un í nokkr­ar vik­ur þegar at­vikið átti sér stað. Skipt var um búnaðinn í reglubundinni skoðun í Kanada 19. nóvember síðastliðinn. Vélin var að koma frá Berlín með 160 farþega innanborðs og 6 manna áhöfn þegar atvikið átti sér stað á föstudag, en allir sluppu ómeiddir.

Að sögn Ragnars er bæði búið að láta NTSB í Bandaríkjunum og TSB í Kanada vita af atvikinu, en það eru systurstofnanir rannsóknarnefndar samgönguslysa. „Við erum búin að senda formlegar tilkynningar til þeirra. Það er ákveðið ferli sem fer af stað af því það eru fleiri aðilar sem koma að rannsókninni. Það er ríki framleiðanda, flugrekanda, þar sem vélin er hönnuð og ef vélin tengist öðrum, eins og í þessu tilfelli var hún í viðhaldi í Kanada. Þess vegna látum við TSB í Kanada vita. Og Bandaríkin, af því hún er framleidd þar.“

Skoða hvort taka þurfi vélar úr umferð eða innkalla búnað

Rannsókn á alvarlegu flugatviki getur tekið langan tíma, jafnvel frá einu ári upp í þrjú. Þá er átt við heildarrannsókn; allt formlega ferlið, allt frá því rannsókn hefst, mál fer fyrir nefndina, umsagnir eru veittar og þangað til lokaskýrsla er gefin út og gerð opinber. 

„En það er  heilmikil vinna á rannsóknarferlinu þar sem er verið að vinna í þessum flugöryggislegu þáttum, þannig ef það er eitthvað sem við sjáum ábótavant þá á sú vinna sér í raun stað á rannsóknartímabilinu. Það er gert jafnóðum og það kemur í ljós. En við erum ekki endilega að gera það opinbert fyrr en að lokinni rannsókn,“ útskýrir Ragnar.

Hlutir úr hjólabúnaðnum fundust annars staðar á flugbrautinni.
Hlutir úr hjólabúnaðnum fundust annars staðar á flugbrautinni. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurður hvort vísbending sé um að þarna hafi mannleg mistök átt sér stað eða hvort galli hafi verið í lendingarbúnaðnum, segir hann það einfaldlega í rannsókn.

Ragnar segir þó enn sem komið er ekkert hafa komið í ljós sem bendi til þess að taka þurfi aðrar vélar sömu gerðar úr umferð. „Þetta er einn af þeim þáttum sem við skoðum. Hvort þetta gæti haft áhrif á einhverjar aðrar flugvélar líka, en við erum ekki komin þangað enn þá.“ Það sama á við um lendingarbúnaðinn sjálfan, hvort tilefni er til að innkalla hann. Að hans sögn er forgangsmál að ganga úr skugga um þessa þætti. „Það er í rauninni það sem við erum að vinna í.“

Að lesa úr flugrita og greina úr honum gögn er eitt af því sem þarf að gera til að varpa skýrara ljósi á atvikið. En flugriti gefur ítarlegar upplýsingar um það hvernig flugið sjálft var. Lesturinn sem slíkur tekur ekki langan tíma, en að greina gögnin er töluvert meira verkefni.

„Við þurfum að fá tímaaflestur og greiningu, það er gert erlendis. Það eru aðrir þættir í rannsókninni sem við erum að vinna við akkúrat núna fyrstu dagana áður en við förum í þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert