Krefur ríkið um 1,4 milljarða króna

Kristján Viðar var sviptur frelsinu í sjö og hálft ár.
Kristján Viðar var sviptur frelsinu í sjö og hálft ár.

Kristján Viðar Júlíusson, einn þeirra sem sýknaðir voru í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í Hæstarétti haustið 2018, hefur stefnt íslenska ríkinu og krefst rúmlega 1,4 milljarða króna í bætur. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudag, að því er fram kemur á vef RÚV.

Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Kristjáns, sendi ríkislögmanni kröfubréf fyrir hans hönd síðastliðið haust, þar sem þess var krafist að ríkið greiddi honum rúmlega 1,6 milljarða króna vegna óréttar, tjóns og miska sem hann varð fyrir í tengslum við málið. Kristján sat í gæsluvarðhaldi í rúm fjögur ár og var samtals sviptur frelsinu í um sjö og hálft ár vegna málsins.

Í lok janúar voru bótagreiðslur greiddar út til þeirra sem sýknaðir voru og afkomenda þeirra, og fékk Kristján 204 milljónir. Hann gerir nú kröfu um, að fá greiddan mismuninn á þeirri upphæð sem hann krafðist upphaflega og þeirrar sem hann hefur nú fengið. Auk dráttarvaxta.

Guðjón Skarphéðinsson, sem einnig var sýknaður í málinu, hefur einnig stefnt ríkinu, en krafa hans hljóðar upp á um 1,1 milljarð króna. Guðjón fékk greiddar 145 milljónir króna í bætur í janúar.

mbl.is