Lilja hefði viljað gagnsæi í ráðningarferli RÚV

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Hari

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að ráðning í stöðu útvarpsstjóra liggi á borði stjórnar RÚV, ekki á borði menningar- og menntamálaráðherra. Hún hefði þó kosið fullt gagnsæi í ráðningarferlinu öllu.

Morgunblaðið greindi frá því fyrr í dag að Krist­ínu Þor­steins­dótt­ur, ein­um um­sækj­enda um starf út­varps­stjóra, hefði borist synj­un um rök­stuðning vegna ráðning­ar­inn­ar.

Synjunin var reist á þeim rökum að stjórn RÚV væri ekki lögskylt að veita einstökum umsækjendum sérstakan rökstuðning þar sem RÚV sé opinbert hlutafélag.

Hefði kosið fullt gagnsæi

Krist­ín óskaði upp­lýs­inga um m.a. hvað hefði ráðið vali á út­varps­stjóra og hvað Stefán Ei­ríks­son, nýr út­varps­stjóri, hefði haft fram yfir hana. Krist­ín óskaði þess einnig að fá gögn um um­sókn­ar­ferlið. Því var einnig neitað. Til stuðnings neitunarinnar vísaði RÚV í úr­sk­urði úr­sk­urðar­nefnd­ar upp­lýs­inga­mála og sagði að upp­lýs­inga­lög veittu ekki rétt til gagn­anna.

„Ráðning í stöðu útvarpsstjóra liggur alfarið á borði stjórnar RÚV sem er kosin af Alþingi Íslendinga. Það hefur þegar komið fram í þessu máli að ég hefði kosið fullt gagnsæi í ráðningarferlinu öllu og það á líka við um ákvörðun stjórnar að rökstyðja ekki,“ segir Lilja í skriflegu svari til mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina