Telja kúlurnar vera frá frönsku herskipi

Þorsteinn Sigurðsson og Lilja Kristinsdóttir hafa varðveitt fallbyssukúluna undanfarin ár, …
Þorsteinn Sigurðsson og Lilja Kristinsdóttir hafa varðveitt fallbyssukúluna undanfarin ár, eða þar til lögreglan tók hana í sína vörslu. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson.

Báðar fallbyssukúlurnar sem fundust í Þrídröngum við Eyjar á árinu 1938 eru komnar í leitirnar. Komið hefur í ljós að kúlan sem fannst í geymslu Sagnheima – byggðasafns Vestmanneyja – er önnur þessara kúlna. Hin hefur verið í vörslu fjölskyldu í Vestmannaeyjum.

Landhelgisgæslan telur líklegast að kúlurnar tvær séu úr fallbyssu fransks herskips enda er til heimild um að slíkt skip hafi notað Þrídranga sem skotmark við æfingar.

„Þetta er stórmerkileg saga,“ segir Sigurður Ásgrímsson, yfirmaður séraðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar. Enginn veit hvernig eða hvenær fallbyssukúlan komst í Sagnheima. Önnur kúla, alveg eins, hefur verið varðveitt í fjölskyldu Þorsteins Sigurðssonar á Blátindi í Vestmannaeyjum. Þorsteinn var einn þeirra þriggja ofurhuga sem klifu snarbrattan klettinn á árinu 1938 til að útbúa uppgönguleið til undirbúnings byggingar vitans í Þrídröngum. Tók hann aðra kúluna með sér og varðveitti alla tíð.

Sprengisveitin tók kúluna úr Sagnheimum í sína vörslu strax og hún fannst, og lögreglan fór í gær að beiðni Landhelgisgæslunnar og tók í sína vörslu kúlu Þorsteins. Sigurður segir að þótt margt bendi til þess að kúlurnar séu tómar sé það ekki víst og betra að þær séu geymdar á öruggum stað þar til úr því fæst skorið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert