Jarðskjálfti 3,1 að stærð nærri Grindavík

Skjálftinn varð um fimm kílómetra VNV við Grindavík.
Skjálftinn varð um fimm kílómetra VNV við Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jarðskjálfti, 3,1 að stærð, varð um fimm kílómetra vestnorðvestan við Grindavík kl. 18:46 í kvöld. Tilkynningar hafa borist til Veðurstofu Íslands um að skjálftinn hafi fundist bæði í Grindavík og í Bláa lóninu.

Annar skjálfti, 2,6 að stærð, varð á sömu slóðum um tveimur mínútum síðar, en almennt hafði dregið úr skjálftavirkni í grennd við Grindavík undanfarna daga, þótt enn mælist smáskjálftar á svæðinu.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands hefur verið „mjög hljótt“ á svæðinu frá því jarðskjálftarnir tveir urðu með skömmu millibili og engin merki um gosóróa.

Sólarhringsvakt Veðurstofunnar fylgist með virkni á svæðinu, en óvissustig er enn í gildi vegna landriss sem mælst hefur frá því í síðasta mánuði og talið er að megi rekja til kvikusöfnunar á 3-5 kílómetra dýpi.

Á vef Veðurstofunnar segir að vísbendingar séu um breytt mynstur í jarðskorpuhreyfingum, en hægt hefur á landrisi þótt enn megi sjá gliðnun yfir svæðið. Í heildina hefur land risið yfir 5 sentimetra frá 20. janúar vestan við Þorbjarnarfell, sem í daglegu tali er einnig kallað Þorbjörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert