„Þetta hefur svakaleg áhrif á okkur“

Sækja þurfti stóran hluta barna á leikskólanum Rauðhóli í hádeginu.
Sækja þurfti stóran hluta barna á leikskólanum Rauðhóli í hádeginu. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta hefur svakaleg áhrif á okkur, það er um helmingur starfsfólks hjá okkur í Eflingu,“ segir Margrét Rúnarsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Rauðhóli í Norðlingaholti. Leikskólinn er sá stærsti í borginni, en þar eru um 190 börn í tveimur húsum. Í húsi við Sandavað eru yngstu börnin og þar hittum við fyrir Margréti rétt áður en starfsfólk Eflingar lagði niður vinnu í dag. Foreldrar, ömmur, afar og aðrir ættingjar streymdu að til að sækja börnin, en senda þarf yfir 50 börn heim í dag, af rúmlega 70, úr húsinu við Sandavað.

„Við reiknum börn á þá starfsmenn sem eru í húsi. Það er misjafnt eftir dögum hve mörg börn þarf að senda heim. Við höldum okkar rútínu eins og við getum. Þegar það er undirbúningstími hjá fagfólki þá getum ekki tekið á móti börnum. Sumum deildum höfum við alveg þurft að loka á verkfallsdögum, til dæmis þegar komið hafa upp veikindi,“ segir Margrét. Sem betur fer hefur þó engin deild verið lokuð alla daga verkfallsins.

Er að skila því sem það á að skila

„Við höldum utan um það hverjir fara heim og reynum að hafa eitthvert jafnræði þar á milli en auðvitað skarast þetta. Auðvitað fara börn ekki jafnt heim því sum börn eru á deildum þar sem fólki fækkar meira en á öðrum. Á einni deild er þetta þannig að einu áhrifin eru á matartímana. Svo reynum við að taka tillit til systkina en það er líka erfitt. Þannig að þetta er alveg að skila því sem það á að skila. Þetta er mikið vesen.“

Á morgun og hinn verður starfsfólk Eflingar í verkfalli allan daginn og þau börn sem verða á leikskólanum þá daga þurfa að fara heim bæði í hádeginu og kaffitímanum til að fá að borða. Þegar heilir verkfallsdagar standa yfir er líka skertur starfstími á Rauðhóli, en ekki er að hægt að opna fyrr en í fyrsta lagi klukkan átta, en ekki hálfátta eins og venjulega, og loka þarf klukkan fjögur í stað fimm.

Láta Eflingu njóta vafans

Aðspurð segir hún foreldra virðast sýna röskun leikskólastarfs vegna verkfalls mikinn skilning. „Mér finnst allir styðja þetta og skilja mikilvægi þess. Þetta er mjög margþætt mál. Það lifir enginn af þessum launum og svo kemur upp spurningin af hverju er ekki meira fagfólk í leikskólunum. Þetta vekur upp spurningar, en skilningurinn er til staðar.“

Hún segir foreldra aðallega spyrja út í framkvæmdina hjá þeim. Hvernig stjórnendur á Rauðhóli hafa útfært starfið á verkfallsdögum.

„Fólk kannski þekkir barn á öðrum leikskóla þar sem þetta er gert öðruvísi. En við þurfum að vera dálítið stífar á því sem við ákváðum, hvernig við gerum þetta. Við viljum alls ekki brjóta neinar verkfallsreglur, það er númer eitt, tvö og þrjú. Við látum Eflingu njóta vafans. Ef það er óvissa með eitthvað þá látum við það vera þeirra baráttu í hag,“ útskýrir hún.

„Við vorum auðvitað að vona að þetta myndi ekki ganga svona langt en í dag lítur allt út fyrir að þetta verði svona fram í næstu viku. Ég er ekkert svakalega bjartsýn. Ég gaf það út að við myndum rúlla þessu kerfi eins og við erum að gera núna, en ef til ótímabundins verkfalls kemur þá endurskoðum við þetta. En í grunninn verður þetta svipað áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert