Icelandair býr sig undir lægð föstudagsins

Svona lítur vindaspáin út kl. 10 á föstudag eins og …
Svona lítur vindaspáin út kl. 10 á föstudag eins og staðan er í dag. Ólíklegt er að margar flugvélar verði á lofti við suðvesturhorn landsins ef þessi spá gengur eftir. Kort/Veðurstofa Íslands

Icelandair er byrjað grípa til fyrirbyggjandi aðgerða, fari svo að alþjóðaflug muni liggja niðri vegna veðurs á föstudaginn, eins og gera má ráð fyrir ef veðurspár rætast.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi flugfélagsins, segir í svari við fyrirspurn mbl.is að Icelandair sé byrjað að bjóða farþegum sem eiga bókað á föstudag að breyta farmiðum sínum í ljósi slæmrar veðurspár föstudagsins.

Gul viðvörun hefur nú þegar verið gefin út og má reikna með því, haldist spár óbreyttar, að veðrið muni hafa umtalsverð áhrif hér á landi. 

Stormur, rok eða ofsaveður

Icelandair mun fylgjast grannt með því hvernig veðrið og spáin þróast og meta stöðuna frekar þegar nær dregur, segir Ásdís Ýr.

Á föstudag spáir austanstormi, roki eða ofsaveðri á landinu og búist er við að það verði hvassast sunnan til framan af degi. Víða verður slydda og snjókoma, úrkomumest sunnan- og austanlands. 

Fréttin og fyrirsögn hennar hefur verið uppfærð: Þau mistök urðu við vinnslu fréttarinnar að lægðinni sem skellur á landinu á föstudag var ruglað saman við aðra lægð, sem mun hafa áhrif í Bretlandi. Þar í landi hefur lægðin verið kölluð Dennis af bresku veðurstofunni og jafnvel „Dennis the Menace“ eða „Denni dæmalausi“ í umfjöllunum breskra fjölmiðla.

mbl.is