Skilgreina brotlendinguna sem flugslys

Rannsakendur telja rétt að flokka atvikið sem flugslys, frekar en …
Rannsakendur telja rétt að flokka atvikið sem flugslys, frekar en alvarlegt flugatvik. Ljósmynd/Aðsend

Ragnar Guðmundsson, sem stjórnar rannsókn rannsóknarnefndar samgönguslysa á brotlendingu flugvélar Icelandair á Keflavíkurflugvelli síðasta föstudag, segir að rannsakendum sýnist sem rétt væri að flokka atvikið sem flugslys, frekar en alvarlegt flugatvik.

Frá þessu var greint í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Ragnar sagði við fréttamann að atvikið hefði getað orðið „miklu alvarlegra“, til dæmis ef flugmenn vélarinnar hefðu misst hana út af flugbrautinni um leið og hún lenti, en blessunarlega tókst flugmönnunum að halda sig innan flugbrautar.

Fram kom í frétt Stöðvar 2 að flugritar vélarinnar verði sendir utan til rannsóknar á næstu dögum og einnig var haft eftir Ragnari að rannsóknarnefndin væri meðal annars að skoða hvernig endurnýjun lendingarbúnaðar vélarinnar fór fram, en lendingarbúnaðinum var skipt út í Kanada nýlega.

Vél­in var að koma frá Berlín með 160 farþega inn­an­borðs og 6 manna áhöfn þegar at­vikið átti sér stað á föstu­dag, en all­ir sluppu ómeidd­ir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert