Tekist á um stóra málið í Landsrétti í dag

Skúli Gunnar Sigfússon og Sveinn Andri Sveinsson hafa tekist hart …
Skúli Gunnar Sigfússon og Sveinn Andri Sveinsson hafa tekist hart á í tengslum við uppgjör á þrotabúi EK1923. Samsett mynd

Stærsta riftunarmálið í tengslum við gjaldþrot EK1923, sem áður var heildsalan Eggert Kristjánsson ehf., var tekið fyrir  í Landsrétti í dag, en þar er tekist á um 223 milljónir og 21 milljón sem skiptastjóri búsins, Sveinn Andri Sveinsson, vill fá frá félaginu Sjöstjörnunni, sem er í eigu athafnarmannsins Skúla Gunnars Sigfússonar, sem jafnan er kenndur við Subway. Er þetta eitt af nokkrum málum sem tengjast skiptunum, en það lang stærsta.

Héraðsdómur dæmdi í október 2018 að rifta bæri greiðslunum, en uppreiknaðar með vöxtum numu þær þá um 400 milljónum og hafa hækkað eitthvað á þeim 16 mánuðum sem liðnir eru síðan.

Fyrir Landsrétt í dag komu meðal annars fyrrverandi eigendur heildsölunnar, en það hafði verið fjölskyldufyrirtæki frá árinu 1922. Sögðu þeir að síðustu árin hafi tekið að halla undan rekstrinum, en þá var meðal annars ákveðið að blása frekar til sóknar og var stærra húsnæði, að Skútuvogi 3, keypt undir starfsemina og átti að auka umfang starfseminnar. Það gekk hins vegar ekki alveg eftir og var unnið að því að sameina félagið annarri heildsölu. Það gekk hins vegar ekki eftir, en í staðinn stigu Skúli og viðskiptafélagar hans inn í og gerðu tilboð um að kaupa heildsöluna. Var hugmyndin að tengja hana meðal annars við innflutning Subway og annars reksturs Skúla.

Fram kom í málflutningi lögmanns Sjöstjörnunnar og Skúla, Heiðari Ásberg Atlasyni, að velta félagsins hafi aukist umtalsvert við þetta og þá hafi eigendur og lánadrottnar lagt umtalsvert fé í reksturinn. Það hafi heldur ekki gengið eftir og var félagið úrskurðað gjaldþrota árið 2016.

Stóra upphæðin og Skútuvogur 3

Hærri upphæðin sem deilt er um, 223 milljónirnar, tengist sölunni á heildsölunni til Sjöstjörnunnar, eða þeim hluta sem snertir Skútuvog 3. Samkvæmt kaupsamningi frá 29. desember 2013 var heildsalan seld fyrir 270 milljónir, „með manni og mús“ eins og það var orðað í þinghaldinu í morgun, meðal annars fyrrnefndri eign, sem þó var talsvert veðsett.

Átti salan að fara í gegn 1. janúar, en slíkt er meðal annars hagstætt í skattalegu tilliti. Hins vegar höfðu menn komist að því að vegna breytingar á stimpilgjöldum þau áramót myndi það auka umtalsvert kostnað kaupanda. Var því farið þess á leit við seljendur að Skútuvogurinn væri seldur fyrir áramót. Tveir af fyrrverandi eigendum heildsölunnar báru vitni um það í morgun að það hafi verið samþykkt, enda var tiltekið skaðleysi fyrir seljendur og var litið á þetta sem greiðasemi við kaupendur.

Síðar árið 2014 var svo gerð skiptingaráætlun og er það í raun hún sem málið snýst um. Er deilt um hvort að kaupsamningurinn eða skipingaráætlunin gildi, en Sveinn Andri telur að með henni hafi Skútuvogur 3 verið færður yfir á Sjöstjörnuna. Hafnaði hann skýringum Heiðars að kaupsamningurinn hafi verið málamyndargjörningur og að athafnir og hátterni í kjölfar kaupsamningsins sýni að gengið var út frá því sem í skiptingaráætluninni kom fram.

Sveinn Andri sagði hins vegar að skiptingaráætlunin hafi ekki verið klár fyrr en eftir að Sjöstjarnan hafi tekið lán út á Skútuvoginn sem og gert leigusamning við EK1923 og með því væri alveg skýrt að Sjöstjarnan horfði svo á að félagið væri orðinn eigandi samkvæmt kaupsamningi.

Héraðsdómur hafði tekið undir þessa skoðun Sveins Andra og sagt að kaupsamningurinn gilti. Sveinn Andri sagði í dómsal í dag ef Landsréttur kæmist hins vegar að þeirri niðurstöðu að skiptingaráætlunin hafi núllað út kaupsamninginn þá byggði þrotabúið á því að Skútuvogur hafi verið selt á undirverð og þar með myndast riftunar- og skaðabótarkrafa.

Heiðar, lögmaður Sjöstjörnunnar, sagði þetta þó af og frá og ljóst væri út frá hátterni í kringum söluna að stuðst hefði verið við skiptingaráætlunina og hún hafi þannig tekið yfir kaupsamninginn. Vísaði hann í dómafordæmi máli sínu til stuðnings, meðal annars nýlegan dóm í máli HS veitna og HS orku annars vegar og hins vegar í mál milli Félags múslima á Íslandi og Menningarseturs múslima. Sagði Heiðar að í báðum þessum málum hefði fyrri samningur verið dæmdur ógildur út frá hátterni og athafna sem væru í samræmi við seinni samning.

EK1923 var í stuttan tíma birgir fyrir Subway veitingastaðina.
EK1923 var í stuttan tíma birgir fyrir Subway veitingastaðina. Ljsómynd/Arnaldur Halldórsson

Þrír dómarar dæma málið, en Aðalsteinn E. Jónasson dómsformaður, var duglegur að bauna spurningum á báða lögmenn sem og að ýta á eftir að tímamörk yrðu virt, jafnvel þótt stór hluti málflutnings þeirra hefði farið í að svara spurningum dómara. Þá spurðu bæði Aðalsteinn og Eiríkur Jónssonar dómarar nokkuð ítarlega um svokallaða krossábyrgð sem Heiðar taldi að myndaðist fyrir kröfuhafa EK1923 með skiptingaráætluninni þegar Skútuvogur 3 var fluttur yfir til Sjöstjörnunnar. Mátti skilja á spurningum þeirra að þeir efuðust um þá skýringu og spurði Eiríkur hvort eðlilegt væri að „drepa“ eitt félag og færa eignir í annað og að ábyrgðin myndi færast með. Sagði Heiðar að ef skiptingin væri fullfrágengin og í samræmi við lög gengi það upp.

Lægri upphæðin og leigutryggingin

Lægri upphæðin til komin vegna leiguábyrgðar. Eftir að Sjöstjarnan tók við Skútuvogi 3 var gerður leigusamningur við heildsöluna, en rúmlega ári síðar keypti fasteignafélagið Reitir Skútuvog 3 af Sjöstjörnunni. Var kaupverðið 670 milljónir, en Sjöstjarnan hafði keypt eignina á 475 milljónir. Gerðu Reitir einnig leigusamning við heildsöluna, en farið var fram á bankaábyrgð til tryggingar. Fór það svo að Sjöstjarnan greiddi upphæðina, tæplega 21 milljón inn á læstan reikning í Íslandsbanka sem var handveðsettur sem trygging. Jafnframt hafði Íslandsbanki tekið allsherjarveð í innistæðunni vegna skulda heildsölunnar og mátti félagið ekki taka fjármunina út af reikningnum.

Hálfu ári síðar var undirritað samkomulag um leigulok, eða í mars 2016. Óskaði þá Guðmundur Hjaltason, þáverandi framkvæmdastjóri Sjöstjörnunnar, eftir því að bankinn myndi greiða upphæðina til Sjöstjörnunnar og staðfesti Skúli þann gjörning við bankann og fór greiðslan til Sjöstjörnunnar. Eftir gjaldþrot heildsölunnar fór skiptastjóri fram á endurgreiðslu upphæðarinnar, en ekki var orðið við því. Kærði skiptastjóri þetta atriðið meðal annars til héraðssaksóknara sem ákærði Skúla og Guðmund vegna þess í nóvember. 

Að lokum er deilt um kyrrsetningu á eignum Sjöstjörnunnar á nokkrum fasteignum að beiðni skiptastjórans vegna þeirra fjármuna sem eru undir. Sagði hann Sjöstjörnuna í dag annars vera eignalaust félag ef frá væru taldar þessar kyrrsettu eignir eftir að Skúli hafi fengið greiddar 375 milljónir í arð.

Málið var dómtekið að málflutningi loknum og má búast við dómi á komandi vikum.

Eitt af nokkrum málum tengt EK1923

Þeir Skúli og Sveinn Andri hafa tekist á í öðrum málum tengdum gjaldþroti EK1923. Í einu máli var Stjarnan, rekstrarfélag Subway, dæmt til að greiða EK1923 15 milljónir í Landsrétti í desember 2018 vegna riftunar á framsali á kröfu EK1923 á hendur íslenska ríkinu til Stjörnunnar. Í sama mánuði var Skúli dæmd­ur til að greiða 2,3 millj­ón­ir í skaðabæt­ur fyr­ir að hafa gefið fyr­ir­mæli um greiðslu skuld­ar EK1923 þegar fé­lagið var orðið ógjald­fært. Mátti ráða að Skúli hefði viðskipta­lega hags­muni af því upp­gjöri. Málið sem var tekið fyrir í dag er síðasta og jafnframt stærsta málið af þessum þremur.

Þetta er þó ekki það eina. Í kringum málið hafa blossað upp miklar deilur um skiptastjórnina, skiptaþóknun og störf dómara í kringum skiptabúið. Þannig krafðist lögmaður Skúla og nokkurra annarra kröfuhafa þess að Sveinn Andri myndi endurgreiða um 100 milljón króna þóknun við skipti búsins. Tók héraðsdómur undir það, en í framhaldinu kvartaði Sveinn Andri undan störfum dómara. Taldi Skúli að Sveinn Andri hafi ekki sýnt nægjanlega vel fram á endurgreiðslu þóknunarinnar og ætlaði hann að kæra Svein Andra fyrir refsiverða háttsemi við skipti búsins. Þá hefur Skúli sagt Svein Andra ofsækja sig og að þyngri rekstur félags síns megi rekja til þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert