Þorri ferðamanna nýtir sér upplýsingar um veðrið

Upplýsingum um færð og veður er veitt til ferðamanna á …
Upplýsingum um færð og veður er veitt til ferðamanna á Íslandi. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við erum ekki sérlega áhyggjufull yfir þessum degi því síðustu mánuði höfum við séð að þorri ferðamanna hefur nýtt sér þessar upplýsingar um veður og færð og hagað ferðum sínum skynsamlega eftir því,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, spurður um upplýsingagjöf til ferðamanna vegna óveðursins sem gengur í garð aðfararnótt föstudags.  

Upplýsingum til ferðamanna er komið á framfæri með fjölbreyttum hætti meðal annars í gegnum safe travel-verkefnið, fyrirtæki í ferðaþjónustunni veita upplýsingar og leiðbeina ferðafólki og ýmsum upplýsingaskjá hefur verið komið upp á fjölförnum ferðamannastöðum svo fátt eitt sé nefnt. Þessar upplýsingar eru á ýmsum tungumálum ekki eingöngu ensku. 

Spurður hvort upplýsingagjöfin sé nægileg í ljósi þess að par varð úti á Sólheimasandi fyrr í vetur, segir Jóhannes að alltaf megi gera betur. Svo virðist sem ferðamennirnir hafi ekki verið með upplýsingar um aðstæður og veður, að sögn Jóhannesar.  

Í þessu samhengi bendir hann á að dæmi séu um að fólk virði ekki tilmæli og upplýsingagjöf en slíkt sé ekki algengt en slíkt komi því miður fyrir. Um helgina bjargaði leiðsögumaður tveimur börnum sem voru hætt komin í Reynisfjöru en svo virðist sem foreldrar þeirra hafi ekki áttað sig á raunverulegri hættu þrátt fyrir skilti á svæðinu sem greina frá því. 

Jóhannes segir að því miður séu dæmi um slíka hegðun sem ekki er alltaf auðvelt að ráða við þrátt fyrir upplýsingagjöf. Hann ítrekar að unnið sé að því að efla upplýsingagjöf á svæðinu og vísar til vinnuhóps um hættumat fyrir Reynisfjöru sem lögreglan á Suðurlandi leiðir.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert