Fjölda fyrirtækja og stofnana lokað

Rauð viðvörun vegna ofsaveðurs tekur gildi á höfuðborgarsvæðinu í fyrramálið.
Rauð viðvörun vegna ofsaveðurs tekur gildi á höfuðborgarsvæðinu í fyrramálið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aftakaveður sem spáð er á morgun mun hafa gríðarleg áhrif á starfsemi stofnana og fyrirtækja, einna helst á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi. 

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna fyrir allt landið vegna aftakaveðurs og Veðurstofa Íslands hefur gefið út rauða viðvörun á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa og Suðausturlandi. 

Reglulegt skólahald fellur niður í Reykjavík en leikskólar og grunnskólar verða engu að síður opnir með lágmarksmönnun fyrir fólk sem þarf nauðsynlega á vistun fyrir börn sína að halda – það er fólk sem sinnir neyðarþjónustu, löggæslu, slökkvistörfum og björgunarsveitarútköllum. 

Frétt mbl.is

Veðrið gengur niður eftir klukkan 15 samkvæmt spá sem þýðir að ýmis þjónusta raskast eða fellur niður í fyrramálið og jafnvel allan daginn. Öllum akstri hjá Strætó á höfuðborg­ar­svæðinu verður af­lýst í fyrra­málið

Eftirfarandi röskun verður á stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar: 

  • Almennt skólahald fellur niður

  • Sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu verða lokaðar en opna kl. 15
  • Frístundaheimili opna þegar viðvörunum lýkur. Eins og staðan er núna er appelsínugul viðvörun í gildi til kl. 15:00
  • Þjónustumiðstöðvar verða lokaðar til kl. 15.
  • Skerðing verður á þjónustu heimahjúkrunar en neyðartilvikum sinnt eftir föngum.
  • Byrjað verður að keyra út heimsendan mat í kvöld og því haldið áfram eftir hádegi á morgun ef veður leyfir.
  • Neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk verða opin allan daginn.
  • Söfn borgarinnar verða lokuð á morgun, en Borgarbókasafnið, Landnámssýningin og Ljósmyndasafn Reykjavíkur verða opnuð kl. 15 ef veður leyfir.
  • Þjónustuver Reykjavíkurborgar verður opið og svarar í síma 411 1111.

Fólk er hvatt til þess að halda sig heima í fyrramálið og fylgjast vel með tilkynningum frá almannavörnum í fjölmiðlum. 

Raskanir hjá Árborg, heilsugæslum, Landspítala, Póstinum og Skeljungi

Lágmarksstarfsemi verður á heilsugæslum á höfuðborgarsvæðinu á morgun, að minnsta kosti fram að hádegi. Allar bókaðar móttökur á starfsstöðvum heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins falla niður í fyrramálið. 

Landspítalinn hefur beðið sjúklinga sem eiga bókaðan tíma á dag- og göngudeildum spítalans að bíða þar til veðri slotar og fara að fyrirmælum almannavarna. Bókaðir tímar verða felldir niður á meðan óveðrið gengur yfir. 

Engin starfsemi verður hjá Póstinum á þeim svæðum þar sem rauð viðvörun er í gildi á morgun. Á öðrum svæðum þar sem appelsínugul viðvörun er í gildi verða aðstæður metnar í fyrramálið en búast má við röskun á þjónustu um allt land á morgun. Ef veður og aðstæður batna til muna verður brugðist við því á viðeigandi hátt.

Engin starfsemi verður hjá Póstinum á þeim svæðum þar sem …
Engin starfsemi verður hjá Póstinum á þeim svæðum þar sem rauð viðvörun er í gildi á morgun. Ljósmynd/Aðsend

Starfsemi Skeljungs verður einnig skert á morgun. Engin dreifing verður á eldsneyti og önnur þjónusta mun ekki eiga sér stað og verður skrifstofa Skeljungs lokuð þar til veður hefur gengið yfir. Sjálfsafgreiðslustöðvar Orkunnar verða opnar en landsmenn eru hvattir til að fylgja ráðum almannavarna og Veðurstofunnar í hverjum landshluta.

Rauð viðvörun er sömuleiðis í gildi á Suðurlandi og ákveðið hefur verið að loka öllum stofnunum Sveitarfélagsins Árborgar á morgun. 

Þetta á m.a. við um allt skólahald, frístunda- og íþróttastarf, gámasvæði, bókasöfn, skrifstofur sveitarfélagsins og félagsþjónustu. Sérstakar ráðstafanir verða þó gerðar vegna heimila með sólarhringsþjónustu.

mbl.is