Fylgist með lægðinni nálgast

Snemma í morgun var óveðurslægðin stödd 850 km austur af …
Snemma í morgun var óveðurslægðin stödd 850 km austur af Nýfundnalandi og var þrýstingur í miðju hennar nú áætlaður 952 hPa. Skjáskot/Windy.com

Austanillviðri er spáð aðfaranótt föstudags og á föstudaginn með slyddu eða snjókomu í flestum landshlutum, og eru appelsínugular veðurviðvaranir í gildi um allt land, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands.

Um klukkan sex í morgun var óveðurslægðin stödd 850 km austur af Nýfundnalandi og var þrýstingur í miðju hennar nú áætlaður 952 hPa. Lægðin dýpkar ört og nálgast landið, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings.

„Skammt norður af Scoresbysundi er 1.014 mb hæð og spár gera ráð fyrir að hæðin standi kyrr þó lægðin nálgist. Í grófum dráttum má segja að það sé þrýstimunurinn milli þessara tveggja veðrakerfa sem veldur þeim aftakavindi sem í vændum er.

Það bætir smám saman í vind í dag og í kvöld má búast við austan 10-23 m/s, hvassast syðst á landinu og snjókoma þar. Þá verður frost á bilinu 1 til 7 stig. Norðaustanlands verður hægur vindur í allan dag og kaldara.

Í nótt hvessir mikið og snemma í fyrramálið má víða búast við austanroki eða -ofsaveðri, en jafnvel fárviðri í vindstrengjum á suðurhelmingi landsins. Víða er útlit fyrir slyddu eða snjókomu og verður úrkoman mest á sunnan- og austanverðu landinu.

Síðdegis á morgun snýst í sunnanhvassviðri sunnan til landinu með rigningu á láglendi þar sem hefur hlýnað vel upp fyrir frostmark. Þá verður hins vegar áfram austanrok og ofankoma um landið norðanvert með hita nálægt frostmarki.

Annað kvöld batnar veður hins vegar svo um munar á öllu landinu þegar vind lægir og dregur úr úrkomu. Undir miðnætti er útlit fyrir strekkingsvind um mestallt land sem væntanlega á eftir að virðast sem logn eftir það sem á undan er gengið,“ segir á vef Veðurstofunnar. 

Veðurvefur mbl.is

mbl.is