„Glórulaus bylur“ í Eyjum

Eyjamenn undirbúa sig fyrir óveðrið eins vel og þeir geta …
Eyjamenn undirbúa sig fyrir óveðrið eins vel og þeir geta og þá skiptir máli að huga vel að skipum við bryggjuna. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

„Það er glórulaus bylur,“ segir Óskar Pétur Friðriksson, fréttaritari Morgunblaðsins í Vestmannaeyjum. Spár gera ráð fyrir fárviðri í Vestmannaeyjum í nótt og á morgun.

Samkvæmt vefsíðu Vegagerðarinnar fer vindur í hviðum í 25 m/s við Básaskersbryggju í Eyjum en þrátt fyrir það segir Óskar að Kári sé ekki farinn að blása það hressilega enn.

„Það er búið að bæta rólega í veðrið í allan dag og þetta virðist alveg ætla að ganga eftir,“ segir Óskar en spár gera ráð fyrir því að vindhraði fari í allt að 40 m/s. Reiknað er með því að veðrið nái hámarki um miðja nótt í Eyjum.

Frá höfninni í Vestmannaeyjum í kvöld.
Frá höfninni í Vestmannaeyjum í kvöld. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Óskar segir að íbúar í eyjunni fögru hafi nýtt daginn í að láta aukaspotta í báta við bryggjuna og ýmsa lausa hluti sem geti farið á flug í miklum vindi.

Margir hafi líka bundið ruslatunnur sínar fastar eða komið þeim inn en Óskar segir að margar tunnur hafi farið á flug í óveðrinu í desember. 

Eyjamenn nýttu tímann síðdegis til að festa skip sín við …
Eyjamenn nýttu tímann síðdegis til að festa skip sín við bryggju. mbl.is/Óskar Pétur
mbl.is