Kristín óskar eftir starfslokum

Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri í Borgarleikhúsinu, hefur óskað eftir starfslokum við …
Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri í Borgarleikhúsinu, hefur óskað eftir starfslokum við stjórn Borgarleikhússins og beðið um að nýr leikhússtjóri taki við keflinu fyrr en áætlað var svo hún geti einbeitt sér að því að leikstýra sinni fyrstu kvikmynd. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristín Eysteinsdóttir borgarleikhússtjóri hefur óskað eftir starfslokum við stjórn Borgarleikhússins og beðið um að nýr leikhússtjóri taki við keflinu fyrr en áætlað var. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu hennar. Ástæðan er m.a. sú að henni býðst að leikstýra kvikmynd og þróa verkið frá fyrstu stigum.

Færsla Kristínar hljóðar svo í heild sinni: 

„Tímamót eru fallegt orð. Einhvers konar skil á milli lífsþátta. Endurnýjun.

Fyrir sex árum var mér boðið að taka við starfi Borgarleikhússtjóra og þvílíkur tími sem þessi ár hafa verið. Leikhússtjórastarfið krefst alls af manni en það gefur líka endalaust til baka.

Ég hef alltaf lagt ríka áherslu á það í mínu starfi að fylgja innsæinu, hlusta á hjartað og gera hlutina alla leið með metnað og gleði að leiðarljósi. Aðeins þannig getur listin blómstrað.

Ég hef ekki lært meira af nokkru starfi og eignast vini sem ég veit að fylgja mér alla tíð.

Nú finn ég í hjarta mínu að það er komið að tímamótum hjá mér. Ég hef ríka þörf fyrir að stíga inn í nýja tíma og skapa eitthvað nýtt. Ég ætla að hlusta á hjartað, fylgja innsæinu og hef því óskað eftir starfslokum við stjórn Borgarleikhússins og beðið um að nýr leikhússtjóri taki við keflinu fyrr en áætlað var.

Ástæður þessarar ákvörðunar minnar eru tvær. Sú fyrri er að mig langar að búa til meira andrými og frelsi í lífi mínu og verja meiri tíma með fjölskyldunni. Sú síðari er að nú stend ég frammi fyrir einstöku tækifæri til að takast á við verkefni sem mig hefur alltaf dreymt um, leikstjórn á kvikmynd og þróun þess verks frá fyrstu stigum. Það verkefni verður opinberað á næstu dögum.

Ráðningarferli nýs leikhússtjóra stendur nú yfir og ég efast ekki um að öflug manneskja veljist til verksins hratt og örugglega. Ég mun að sjálfsögðu vera áfram í leikhúsinu þar til nýr leikhússtjóri hefur tekið við og mun leggja mig fram við að koma nýjum aðila vel inn í starfið.

Þegar ég horfi um öxl sé ég árangur sem ég veit að við sem vinnum í Borgarleikhúsinu getum alltaf verið stolt af. Listrænt séð höfum við náð nýjum hæðum og síðustu ár hafa skilað afar góðum rekstrarárangri. En það mikilvægasta er að við höfum verið hugrökk og gert list sem hefur hreyft við fólki og ég trúi því einlæglega að með því höfum við haft áhrif á samfélagið okkar til góðs. En það er ekki nóg að vera hugrakkur í listinni, maður verður líka að vera það í lífinu sjálfu og taka nýjum tækifærum og áskorunum með opnum örmum.

Full þakklætis fyrir þetta stórbrotna ferðalag með ykkur öllum stíg ég með eftirvæntingu inn í framtíðina.“

Tilkynning frá stjórn Leikfélags Reykjavíkur: 

Reykjavík 13. febrúar 2020

Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri, hefur óskað eftir að fá að ljúka störfum hjá Borgarleikhúsinu fyrr en ætlað var og hefur stjórn Leikfélags Reykjavíkur orðið við þeirri ósk. Kristín mun því ljúka störfum hjá félaginu þegar nýr leikhússtjó[r]i hefur verið ráðinn og settur inn í starfið.

Kristín hefur starfað sem leikhússtjóri frá árinu 2014 og fyrir liggur að síðara starfstímabil hennar hefði runnið út á næsta ári. Stjórn LR auglýsti 16. janúar sl. stöðu leikhússtjóra Borgarleikhússins lausa til umsóknar og var gert ráð fyrir að nýr leikhússtjóri hæfi störf í byrjun næsta árs við að undirbúa leikárið 2021 til 2022. Umsóknarfrestur rann út 30. janúar sl. og bárust alls sjö umsóknir sem stjórnin hefur farið yfir á síðustu dögum. Ljóst er að breyttar aðstæður núna hafa áhrif á það ráðningarferli og mun stjórn LR ganga frá ráðningu nýs leikhússtjóra á næstu dögum.

Stjórn LR vill þakka Kristínu farsælt samstarf undanfarin sex ár og óskar henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Eggert Benedikt Guðmundsson, formaður Leikfélags Reykjavíkur

mbl.is